Innlent

Ísbjarnarhræið komið til Garðabæjar í hendur Náttúrufræðistofnunnar

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Íbúar á Hvalnesi urðu dýrsins varir og tilkynntu það til lögreglu.
Íbúar á Hvalnesi urðu dýrsins varir og tilkynntu það til lögreglu. Vísir/Karitas
Hræ ísbjarnarins sem felldur var á Skaga í nótt er komið í bæinn frá Skagaströnd þar sem það var geymt í kæli yfir nótt. Náttúrufræðistofnun tekur við því nú og tekur við hefðbundin rútína stofnunarinnar þegar kemur að greiningu á dýrum sem þessum.

„Það þarf að kryfja dýrið og taka sýni, bara svona eins og við gerum alltaf,“ segir Jón Gunnar Ottóson, forstöðumaður Náttúrufræðistofnunnar, en ísbjarnarhræið er nú alfarið á forræði og í umsjá stofnunarinnar. „Leið og búið er að fella dýrið er það komið í umsjá okkar.“

Ísbjörninn gekk á land á Skaga og komu ábúendur á Hvalnesi auga á dýrið þegar þau voru úti seint í gærkvöldi að temja hestana sína. Þau hringdu á lögreglu í kjölfarið og vana skyttu. Dýrið var svo fellt í nótt.

„Þetta er fimmta dýrið á nokkrum árum núna,“ segir Jón Gunnar. Hann segir dýrin fátt eitt eiga sameiginlegt annað en að þetta eru hvítabirnir, þau séu alla jafna í mismunandi ásigkomulagi. Birnan sem kom á land við Hvalnes á Skaga í gær var vel á sig komin og töldu menn sem skoðuðu hana í gær hana vera nokkuð fullorðna.

„Það verða tekin sýni til efnagreininga og aldursgreininga. Svo göngum við frá dýrinu hérna í safninu okkar. Það er ekki búið að taka neina ákvörðun um hvort það verði sett upp,“ segir Jón Gunnar en það er orðalagið sem Náttúrufræðistofnun notar um að stoppa upp dýr.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×