Innlent

Isavia telur áhættu vegna lokunar flugbrautar þolanlega

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Flugbrautin 06/24  sem loka á er fyrir miðri mynd.
Flugbrautin 06/24 sem loka á er fyrir miðri mynd. Fréttablaðið/Pjetur
„Hverfandi líkur eru taldar á að slys yrði þar sem mannslíf töpuðust og flugvél eyðilegðist,“ segir í áhættumati sem Isavia hefur gert vegna hugsanlegrar lokunar flugbrautar 06/24 á Reykjavíkurflugvelli.

Mikill styr hefur staðið um þá fyrirætlan borgaryfirvalda í Reykjavík að leggja niður flugbraut 06/24. Óskaði innanríkisráðherra eftir því við Isavia, sem annast rekstur flugvalla á Íslandi, að gera áhættumat vegna málsins. Isavia segir áhættuna innan „þolanlegra“ marka.

Í niðurstöðum Isavia segir að ólíklegt sé talið að alvarlegt atvik yrði þar sem fólk slasaðist og miklar skemmdir yrðu á búnaði vegna hliðarvinds.

„Ólíklegt er talið að slys verði, neyðist flugmaður til að lenda við aðstæður sem væru utan marka afkastagetu flugvélar. Ástæða þess er að flugmaðurinn hefur aðgengi að veðurupplýsingum með góðum fyrirvara og getur því tekið ákvörðun um annan lendingarstað,“ segir í niðurstöðunum.

Þá segist Isavia meta áhættuna í flokki B, sem þolanlega, þar sem ekki hafi verið tekin ákvörðun um mildandi aðgerðir. En ef til formlegrar ákvörðunar innanríkisráðuneytisins um lokun brautar 06/24 kemur verður lagt í þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×