Innlent

Isavia falið að loka flugbraut 06/24

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Innanríkisráðherra hefur falið Isavia að loka norðaustur-suðvestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar.
Innanríkisráðherra hefur falið Isavia að loka norðaustur-suðvestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar. Vísir/Baldur
Innanríkisráðherra hefur falið Isavia að loka norðaustur-suðvestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar. Þetta kemur fram í bréfi sem ráðherra sendi Isavia og borgarstjóra nú síðdegis.

 

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu hinn 9. júní síðastliðinn að ríkið þurfi að loka norðaustur-suðvestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar. Var innanríkisráðherra gert að loka brautinni innan sextán vikna eða fyrir 29. september næstkomandi.

 

Flugbrautin hefur ekki verið í notkun undanfarnar vikur en þær upplýsingar fengust frá Isavia í dag að brautin væri lokuð, eins og algengt er yfir sumartímann. Ljóst er að hún verður ekki opnuð aftur en fréttastofa hefur undir höndum bréf sem innanríkisráðherra sendi í dag til Isavia og borgarstjóra þar sem fram koma formleg fyrirmæli til Isavia um að brautinni skuli lokað.

 

Ákvörðun innanríkisráðherra um lokun

Í bréfinu sem barst Isavia nú síðdegis er vísað til dóms Hæstaréttar frá 9. júní. Þá segir:

„Í ljósi niðurstöðu dómsins hefur innanríkisráðherra tekið ákvörðun um að loka beri flugbrautinni og taka hana úr notkun.

 

Hér með er Isavia ohf. falið að annast lokun brautarinnar þannig að framkvæmdin samræmist lögum og verklagi sem um lokunina gilda.“

 

Þá kemur fram að innanríkisráðuneytið muni boða til fundar með Isavia til að fara yfir áhrif lokunar flugbrautarinnar á gildandi þjónustusamning vegna innanlandsflugs.

 

Reykjavíkurflugvöllur orðinn tveggja brauta völlur

„Þetta ferli er í sjálfu sér mjög einfalt. Við sendum út svokallað notam og það er raunar farið út, var sent út í síðustu viku, um að brautinni sé lokað. Þá raunverulega er hún ekki í notkun á meðan slíkt skeyti er úti,“ segir Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri innanlandsflugvallasviðs hjá Isavia.

 

Aðspurður hvort þetta hafi þá þýðingu að brautin verði aldrei opnuð aftur, til að mynda í neyðartilvikum, segir Jón að brautin fari ekki neitt fyrr en farið verður að byggja á henni. Hún verði því ekki brotin upp eða fjarlægð með öðrum hætti.

 

„Þessi ákvörðun er væntanlega endanleg. Þannig að við gerum ráð fyrir að þessi völlur verði bara tveggja brauta völlur hér eftir og nýtum þetta þá væntanlega bara sem akbrautir og flugvallarstæði á meðan. Þannig að brautin nýtist sem slík áfram en bara ekki sem flugbraut,“ segir Jón Karl.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×