Handbolti

Ísak: Nýti kannski frítímann til að finna kærustu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
FH á eftir að sakna Ísaks mikið á næstu vikum.
FH á eftir að sakna Ísaks mikið á næstu vikum. vísir/þórdís
„Þetta verður tekið mjög alvarlega og nú tekur bara við hvíld hjá mér. Það er ómögulegt að segja hvenær ég get farið að æfa aftur,“ segir FH-ingurinn Ísak Rafnsson sem fékk heilahristing í bikarúrslitaleik FH og ÍBV. Það munaði mikið um fjarveru hans í æsispennandi leik sem ÍBV vann.

„Við förum eftir ákveðnum prófum og fylgjumst með. Svo verður tekin ákvörðun í kjölfarið um hvenær ég má byrja aftur. Nú má ég ekki verða fyrir neinu utanaðkomandi álagi og þarf bara að hvíla mig.“

Ísak sagðist hafa dottið aðeins út er hann meiddist en hann var fljótlega kominn í samband aftur.

„Þetta er auðvitað hundfúlt. Til að byrja með ætlaði ég mér að verða bikarmeistari og svo er ég meiddur núna. Þetta stóð ekki beint til. Ég verð samt að taka þessu og reyna að vera skynsamur. Það verður ekkert svindlað enda alvarlegt mál. Við förum eftir öllum ráðleggingum og teflum ekki á tvær hættur með svona meiðsli,“ segir Ísak fúll en nú tekur við slökun og myndbandagláp.

„Ég nýti kannski frítímann líka til að finna kærustu. Mamma er farin að hafa áhyggjur af því að ég verði einhleypur. Nú hef ég tíma til þess að skoða þau mál,“ sagði Ísak léttur þrátt fyrir mótbyrinn sem hann berst nú í gegnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×