Erlent

IS-liðar að baki hryðjuverkaógninni í Noregi

Atli Ísleifsson skrifar
Norska ríkisstjórnin og öryggislögreglan varaði við að raunveruleg hætta steðjaði að öryggi norska ríkisins á fréttamannafundi þann 24. júlí síðastliðinn.
Norska ríkisstjórnin og öryggislögreglan varaði við að raunveruleg hætta steðjaði að öryggi norska ríkisins á fréttamannafundi þann 24. júlí síðastliðinn. Vísir/AFP
Fjórir íslamistar á vegum IS-samtakanna leiddu til að norsk yfirvöld lýstu hækkuðu viðvörunarstig vegna aðsteðjandi hryðjuverkaógnar fyrr í sumar. Þetta hefur norska blaðið Dagbladet eftir heimildarmönnum sínum.

Dagbladet hefur fengið það staðfest hverja um ræðir og að þeir komi ekki frá Miðausturlöndum. Kjósa þeir að nafngreina ekki mennina.

Norska ríkisstjórnin og öryggislögreglan varaði við að raunveruleg hætta steðjaði að öryggi norska ríkisins á fréttamannafundi þann 24. júlí síðastliðinn og var lögregla með mikinn viðbúnað á opinberum stöðum næstu daga á eftir.

Hinir fjórir grunuðu voru á leið til Noregs frá Aþenu um miðjan júlímánuð en ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um ferðir þeirra. Hryðjuverkaógn steðji því í raun enn að landinu.

Í fréttinni kemur fram að ekki sé vitað hvenær til hafi staðið að gera hryðjuverkaárás, en gögn liggi fyrir um að hún hafi átt að vera umfangsmikil og skapa „hræðslu á alþjóðavísu“. Til hafi staðið að ráðast á stórborg og að hún hafi jafnvel átt að vera gerð í suðurevrópsku landi.

Norsk yfirvöld vinna nú með lögreglu í öðrum löndum í leit sinni að umræddum mönnum. Talsmenn norsku lögreglunnar og dómsmálaráðuneytisins hafa neitað því að tjá sig um frétt Dagbladet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×