Körfubolti

Irving sá um Boston er Cleveland komst í 1-0

Kyrie Irving átti stórleik í kvöld.
Kyrie Irving átti stórleik í kvöld. vísir/getty
Cleveland Cavaliers átti ekki í teljandi vandræðum með að leggja Boston Celtics að velli, 113-110, í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum austurdeildar NBA-deildar karla í körfubolta.

Boston byrjaði leikinn ágætlega og var með fjögurra stiga forskot  eftir fyrsta leikhluta, 31-27, en Cleveland setti í annan gír í öðrum leikhluta sem það vann, 35-23, og var 62-54 yfir í hálfleik.

Kyrie Irving, leikstjórnandi Cleveland, var að spila sinn fyrsta leik í úrslitakeppni NBA og skoraði að því tilefni úr fyrstu fimm þriggja stiga skotunum sínum. Hann reyndar hitti ekki úr þeim fjórum næstu.

Í heildina skoraði Irving 30 stig í leiknum, en hann skoraði 20 stig í fyrri hálfleik. Síðasta karfan í fyrri hálfleik var glæsilegur flautuþristur sem sjá má hér neðst í fréttinni.

LeBron James bætti við 20 stigum fyrir Cleveland auk þess sem hann tók sex fráköst og gaf sjö stoðsendingar, en Kevin Love var með myndarlega tvennu upp á 19 stig og tólf fráköst.

Isaiah Thomas var stigahæstur í liði Boston, en hann kom inn af bekknum og skoraði 22 stig og gaf 10 stoðsendingar.

Cleveland er 1-0 yfir í rimmunni en vinna þarf fjóra leiki til að komast í undanúrslit austurdeildarinnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×