Erlent

Íraski herinn nær austurhluta Mosul undir sitt vald

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Austurhluti Mosúl er nú undir stjórn íraska hersins.
Austurhluti Mosúl er nú undir stjórn íraska hersins. Vísir/AFP
Írösk yfirvöld tilkynntu í dag að íraskar öryggissveitir hefðu náð fullri stjórn á austurhluta Mosúl borgar, hundrað dögum eftir að sókn þeirra hófst gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki Íslams, sem hafa farið með yfirráð á svæðinu. Reuters greinir frá.

Mosúl er eitt síðasta höfuðvígi hryðjuverkasamtakanna í þéttbýli í Írak.

Talsmaður íraska hersins tilkynnti á sunnudag að herinn hefði náð á sitt vald Rashidiya hverfinu, en um var að ræða síðasta hverfið, austan Tígris ánnar, sem liggur um miðja borgina, sem enn er undir stjórn Ríkis Íslams.

Bandaríkjamenn hafa veitt íraska hernum stuðning úr lofti.

Sókn íraska hersins hófst þann 17. október síðastliðinn, en leiðtogar Ríkis Íslams hafa ráðið ríkjum í borginni síðan árið 2014, þegar þeir lýstu því yfir að borgin yrði höfuðborg nýs ríkis.

Talið er að hertaka á vesturhluta borgarinnar verði flóknari í framkvæmd, þar sem götur borgarinnar eru þrengri og því er ekki hægt að keyra á brynvörðum bílum né skriðdrekum um þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×