Erlent

Írar vilja að landamærin verði opin áfram

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Charles Flanagan, utanríkisráðherra Írlands, segir nauðsynlegt að landamærin að Norður-Írland verði áfram opin.
Charles Flanagan, utanríkisráðherra Írlands, segir nauðsynlegt að landamærin að Norður-Írland verði áfram opin. vísir/epa
Írska ríkisstjórnin hyggst fara fram á samningaviðræður við Evrópusambandið um að landamærunum að Norður-Írlandi verði áfram haldið opnum eftir að Bretland hefur formlega yfirgefið Evrópusambandið.

Írar hafa áhyggjur af því að brotthvarf Bretlands hafi það í för með sér að landamærum Írlands og Norður-Írlands verði vandlega lokað, fari svo að samningaviðræður Breta við Evrópusambandið endi með því að Bretar skelli öllu í lás.

Sérsamningur við Írland myndi hins vegar þýða að íbúar annarra Evrópusambandsríkja ættu áfram greiða leið til Bretlands í gegnum Írland.

Írska stjórnin hittist í gær til að ræða útgöngu Bretlands og áhrifin sem hún kunni að hafa á Írland.

Þá hafa stjórnvöld á Norður-Írlandi einnig áhyggjur af útgöngu úr Evrópusambandinu og hafa leitað til hæstaréttar Norður-Írlands.

Ronan Lavery, lögmaður norður-írsku stjórnarinnar, fullyrti í gær að Norður-Írland geti hafnað útgöngu á grundvelli friðarsamningsins um Norður-Írland, sem gerður var á föstudaginn langa árið 1998.

„Brotthvarf úr Evrópusambandinu er svo djúpstæð breyting að hún þarf samþykki frá íbúum Norður-Írlands,” hafði Reuters-fréttastofan eftir honum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×