Íslenski boltinn

Írar trúa varla að þeir hafi unnið FH: „Í landi álfa og dverga spilaði Dundalk eins og risi“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Írarnir fögnuðu ótrúlegum „sigri“
Írarnir fögnuðu ótrúlegum „sigri“ vísir/eyþór
Írska liðið Dundalk gerði góða ferð í Hafnarfjörð í gærkvöldi og batt þar enda á Evrópudrauma FH þetta tímabilið. Dundalk komst áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli eftir 2-2 jafntefli og mætir BATE Borisov frá Hvíta-Rússlandi í þriðju umferð forkeppni Meistaradeildarinnar.

FH byrjaði leikinn mun betur og var miklu betra liðið í fyrri hálfleik. Heimamenn voru 1-0 yfir eftir 45 mínútur en írska liðið gerði taktíska breytingu í hálfleiknum og valtaði yfir Íslandsmeistarana í seinni hálfleik. Það komst í 2-1 á fyrsta korterinu sem dugði til að komast áfram. Jöfnunarmark Kristjáns Flóka Finnbogasonar var ekki nóg fyrir heimamenn.

Skrifað er um leikinn í Írlandi sem gríðarlegt afrek en á írsku fréttasíðunni Independent.ie er talað um sigurinn í samhengi við tíu fræknustu sigra írskra liða í Evrópukeppnum frá upphafi.

Fögnuðu Dundalk-manna í leikslok var einlægur.vísir/eyþór
Álfar, dvergar og risar

Í umfjöllun sama miðils
um leikinn sjálfan segir að leikmenn Dundalk hafi spilað eins og risar í landi álfa og dverga og að liðið hafi tekið risastórt skref í rétta átt.

Stuðningsmenn Dundalk sungu í stúkunni í 45 mínútur eftir leik og ætluðu ekki að trúa eigin augum en fæstir stuðningsmanna gestaliðsins bjuggust við því að leggja Íslandsmeistarana að velli.

Mikið er fjallað um peningana sem nú streyma til Dundalk fyrir að komast áfram en liðið hefur í heildina safnað sér 1,2 milljónum punda í verðlaunafé. Framherjinn David McMillan skoraði bæði mörk Dundalk en hann fær forsíðu The Irish Times með fyrirsögninni „Mc1.2Million“

Irish Mirror skrifar svo um að ljós Dundalk hafi skinið skærast í landinu þar sem sólin aldrei sest er írska liðið komst áfram í Meistaradeildinni á ótrúlegan hátt.

Þetta virðist svo sannarlega vera stórmál á Írlandi og segir sitt um hversu svekkjandi þessi úrslit eru fyrir Íslandsmeistara FH.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×