Erlent

Íranir saka Sáda um að hafa gert árás á sendiráð Írans í Jemen

Atli Ísleifsson skrifar
Mikil spenna er í samskiptum ríkjanna eftir að Sádar tóku sjítaklerk af lífi um helgina, auk 46 annarra.
Mikil spenna er í samskiptum ríkjanna eftir að Sádar tóku sjítaklerk af lífi um helgina, auk 46 annarra. Vísir/AFP
Írönsk stjórnvöld hafa sakað Sádi-Araba um að hafa gert loftárás á sendiráð Írans í jemensku höfuðborginni Sana’a í morgun.

BBC greinir frá því að fréttir hafi borist af því að öryggisvörður hafi særst og skemmdir verið unnar í árásinni.

Mikil spenna er í samskiptum ríkjanna eftir að Sádar tóku sjítaklerk af lífi um helgina, auk 46 annarra. Í kjölfar aftökunnar réðust mótmælendur inn í sendiráð Sáda í Íran og brenndu það.

Eftir það slitu Sádi-Arabía, Barein og Súdan stjórnmálasamskiptum við Íran. Sameinuðu arabísku furstadæmin og Kúveit hafa einnig dregið úr samskiptum sínum við Íran kallað sendiherra sinn í Teheran heim.

Íranir og Sádar styðja sitt hvora fylkinguna í borgarastríðinu í Jemen. Íranir styðja við uppreisnarsveitir Húta á meðan Sádar fara fyrir bandalagi ríkja sem reyna að koma þeim forseta og þeirri ríkisstjórn sem viðurkennd er á alþjóðavísu aftur til valda. Hútar ráða nú yfir höfuðborginni Sana’a auk þess að hafa náð tökum á stórum svæðum í landinu.


Tengdar fréttir

Íranir senda Sádum tóninn

Segja Sáda ekki geta "falið glæp sinn“ með því að slíta samskiptum við Íran.

Aftökur draga dilk á eftir sér

Mikil ólga er í Austurlöndum nær vegna aftöku Sádí-Araba á 47 einstaklingum, þar af á einum mikilsmetnum trúarleiðtoga sem var einn helsti gagnrýnandi stjórnvalda í hinu íhaldssama ríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×