Körfubolti

ÍR-ingar mæta á Egilsstaði án bandaríska leikmannsins síns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonathan Mitchell.
Jonathan Mitchell. Vísir/Anton
Jonathan Mitchell verður ekki með ÍR-liðinu í leiknum mikilvæga á móti Hetti í Domino´s deild karla í körfubolta sem fram fer á Egilsstöðum á fimmtudagskvöldið.

Borche Ilievski, þjálfari ÍR-liðsins, staðfesti það við karfan.is að Jonathan Mitchell muni missa af leiknum en Bandaríkjamaðurinn er enn að ná sér eftir að hafa fengið lungabólgu.

„Hann á að taka sér um sex vikna hlé en við vonum að það verði ekki svo langt,“ sagði Borche Ilievski við karfan.is.

Höttur er sex stigum á eftir ÍR þegar fjórar umferðir og átta stig eru eftir í pottinum. Höttur verður að vinna leikinn til að eiga möguleika á því að ná ÍR og halda sér í deildinni.

Hattarliðið hélt sér á lífi með því að vinna FSU í síðustu umferð en liðið hefur spilað mjög vel að undanförnu og var hársbreidd frá því að vinna bæði Tindastól (81-84), Keflavík (66-69) og Snæfell (89-90) en liðið tapaði þessum þremur leikjum með samtals sjö stigum.

Jonathan Mitchell var ekki með á móti Njarðvík í síðustu umferð þar sem Njarðvíkingar þurftu að hafa sig alla við til að landa sigri.

Mitchell mun missa af sínum fimmta deildarleik á tímabilinu á móti Hetti en fyrr í vetur gat hann ekki spilað eftir að hafa fengið blóðtappa í annan fótinn.

Jonathan Mitchell er með 26,4 stig og 11,1 frákast að meðaltali í þeim 14 leikjum sem hann hefur spilað en ÍR-liðið hefur unnið fjóra af þeim.

„Við vitum ekki hve langan tíma þetta mun taka en Mitchell mun reyna að æfa eitthvað í vikunni en hann leikur ekki með gegn Hetti, svo mikið er víst," bætti Borche Ilievski við í viðtali við karfan.is.

ÍR hefur aðeins unnið 1 af 5 leikjum sínum án Jonathan Mitchell í vetur og sá sigur kom á móti Stjörnunni 29. október. Oddur Rúnar Kristjánsson var með 28 stig og 8 stoðsendingar í þeim leik en hann fór til Njarðvíkur um áramótin og verður því eins og Mitchell fjarri góðu gamni á Egilsstöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×