Erlent

iPhone 7 eigendur reyna að bora tengi fyrir heyrnartól á símann sinn

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Nýr iPhone var kynntur þann 7. september en honum fylgja þráðlaus heyrnartól.
Nýr iPhone var kynntur þann 7. september en honum fylgja þráðlaus heyrnartól. Vísir/Getty
Kennslumyndband sem sýnir hvernig bora á heyrnartólatengi á iPhone 7 hefur orðið til þess að fjölmargir iPhone eigendur þurfa nú líklegast að fjárfesta í nýjum síma.

Ástæðan er sú að myndbandið er blekking enda er að öllum líkindum ómögulegt að búa til tengi á síma með því einfaldlega að bora í hann. Fjölmargir virðast þó hafa fallið fyrir hrekknum. 

iPhone 7 kom á markað fyrir skemmstu en síminn er sá fyrsti sinnar tegundar sem hefur ekkert tengi fyrir heyrnartól. Þess í stað fylgja þráðlaus heyrnartól með símanum. Margir af notendum símans eru lítt hrifnir af þessum eiginleika og sakna þess að geta notað sín eigin heyrnartól í stað þeirra þráðlausu.

Vart þarf að taka fram að símar þeirra sem reyndu þetta eyðilögðust. Sumir hafa lýst gremju sinni í athugasemdum við myndbandið en aðrir gera óspart grín að þeim sem féllu í gildruna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×