Fótbolti

Inter komið áfram í Evrópudeildinni | Úrslit kvöldsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pablo Osvaldo fagnar marki sínu í kvöld.
Pablo Osvaldo fagnar marki sínu í kvöld. vísir/getty
Næstsíðasta umferð riðlakeppni Evrópudeildar UEFA fór fram í kvöld en ítölsku liðin Inter og Fiorentina eru bæði örugg áfram í 32-liða úrslit keppninnar eftir úrslit kvöldsins.

Inter hafði betur gegn Dnipro, 2-1, með mörkum Zdravko Kuzmanovic og Pablo Osvaldo. Inter er með ellefu stig í F-riðli og sex stiga forystu á næstu lið.

Fiorentina er með þrettán stig í efsta sæti K-riðils eftir sigur á En Avant Guingamp á útivelli, 2-1. Marko Marin og Khouma Babacar skoruðu mörk Ítalanna á fyrstu fimmtán mínútum leiksins.

Rúrik Gíslason spilaði allan leikinn er lið hans, FCK, tapaði fyrir HJK í Helsinki í kvöld, 2-1. Sigurmark Finnanna kom á þriðju mínútu uppbótartímans en tapið þýðir að Rúrik og félagar eiga ekki möguleika á sæti í 32-liða úrslitunum.

Dinamo Moskva er komið áfram en liðið er með fullt hús stiga í E-riðli eftir 2-1 sigur á Panathinaikos í dag. Red Bull Salzburg er öruggt með efsta sæti D-riðils eftir sigur á Celtic í kvöld, 3-1, í Skotlandi. Celtic er þrátt fyrir tapið komið áfram í 32-liða úrslitin.

Everton og Tottenham eru einnig komin áfram eftir sigra í sínum leikjum. Þá eru Dynamo Kiev, Legia Varsjá, Besiktas og Trabzonspor örugg með sín sæti í 32-liða úrslitum..

Flauta þurfti leik Estoril og PSV í Portúgal af í hálfleik vegna mikils blautviðris en staðan var þá 3-2 fyrir heimamenn í Estoril.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×