Innlent

Innan­lands­flugið hefur tekið stóra dýfu

Sveinn Arnarsson skrifar
Bombardier-vél Flugfélags Íslands á Egilsstaðaflugvelli.
Bombardier-vél Flugfélags Íslands á Egilsstaðaflugvelli. MyndFriðrik Þór Halldórsson.
Farþegum í innanlandsflugi hefur fækkað um fjórðung á síðustu níu árum. Á sama tíma hefur erlendum ferðamönnum hingað til lands fjölgað um 150 prósent.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir fækkun í innanlandsflugi vera afleiðingu háskattastefnu.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja.
„Opinber gjöld eru þyngsti rekstrarkostnaður flugþjónustu á Íslandi. Ef það er samfélagslegur vilji að hafa flugþjónustu í landinu þarf fyrst að skoða opinberar álögur á flugið. Það er alveg ljóst í mínum huga að það er verið að sjúga lífið úr innanlandsfluginu,“ segir Elliði.

„Flugið er lífæð samfélaga í fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Við verðum að nálgast þetta sem hluta af innviðum samfélagsins. Rétt eins og vegi, brýr og hafnir.“

Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar, segir erlenda ferðamenn nú vera að nýta sér flugið í meiri mæli en áður.

„Það sem af er þessu ári höfum við verið að sjá 30 prósent fjölgun erlendra ferðamanna sem nýta sér innanlandsflug og er það í línu við fjölgun á komum erlendra ferðamanna til landsins,“ segir Skapti Örn.

Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar.
 „Þá eru merki um að Íslendingar nýti sér innanlandsflug í ríkari mæli og helst það í hendur við kaupmáttaraukningu í landinu.“

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, tekur í sama streng og Skapti. Hagvöxtur og fjöldi innlendra flugfarþega haldist í hendur.

Hann segir auðvelt fyrir hið opinbera að lækka álögur á flugið til að lækka verðið.

„Við erum að rukka gjöld fyrir ríkið sem og að greiða skatta til ríkisins sem önnur fyrirtæki gera ekki. Ef sérskattar á flug yrðu afnumdir myndum við lækka flugfargjald um 15 prósent,“ segir Árni.

Hann segir einnig að verði innan­landsflugið fært til Keflavíkur sé ljóst að innanlandsflug í núverandi mynd legðist af fljótlega. 

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.
„Við áætlum að við það að færa innanlandsflug til Keflavíkur myndi farþegum fækka um 30 til 40 prósent við þann flutning einan.

Þá fer að vera spurning um fjölda farþega til ákveðinna staða og tíðni flugferða á áfangastaði okkar og hvort það borgi sig að fljúga á þá að staðaldri,“ segir Árni.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Innan­lands­flug sem al­mennings­sam­göngur

Innanlandsflug er mikilvægt fyrir Austurland – um þá staðreynd eru flestir sammála. Það er því ekki skrýtið að umræða um verðlag á innanlandsflugi sé ofarlega á baugi þegar talað er um mikilvægi flugsins fyrir íbúa og fyrirtæki á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×