Innlent

Innanlandsflug um Reykjavíkurflugvöll lá niðri í morgun

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Seinka þurfti innanlandsflugferðum.
Seinka þurfti innanlandsflugferðum. Vísir/Sigurjón
Innanlandsflug um Reykjavíkurflugvöll lá niðri í morgun vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra. Formaður félags flugumferðarstjóra segir kjaradeilu þeirra og Isavia í algjörum hnút. Sigurjón Jónasson, formaður félags flugumferðarstjóra segir ástandið í morgun sýna hversu mikil manneklan er.

Flugumferðarstjóra og Isavia hafa átt í viðræðum um nýja kjarasamninga síðan í október á síðasta ári. Síðan í byrjun febrúar hafa flugumferðarstjórar verið kjarasamningslausir. Flugumferðarstjórar settu á yfirvinnubann í byrjun apríl til að knýja á um lausn deilunnar. Í morgun lá allt innanlandsflug niðri um Reykjavíkurflugvöll þar til klukkan hálf ellefu vegna yfirvinnubannsins.

„Þetta er afleiðing þeirrar miklu manneklu sem við höfum verið að kljást við,“ sagði Sigurjón. Hann sagði að vegna manneklu hefðu menn verið kallaðir þeim mun oftar út til yfirvinnu. Hann telur að það vanti um tuttugu flugumferðarstjóra til að nægur mannskapur sinni störfum á flugvöllum landsins. Nú þegar ekki sé möguleiki að kalla út menn í yfirvinnu sjáist hversu slæmt ástandið er.

Samninganefndir flugumferðarstjóra og Isavia hittust á föstudaginn á fundi. Sigurjón segir þann fund hafa verið árangurslausan og kjaradeiluna í algjörum hnút. Næsti fundur hefur ekki verið boðaður.

„Við munum væntanlega funda aftur innan tveggja vikna eins og lög gera ráð fyrir,“ segir Sigurjón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×