Innlent

Innanlandsflug liggur niðri vegna veðurs

Gissur Sigurðsson skrifar
Innanlandsflug hefur legið niðri í allan morgun vegna óveðurs.
Innanlandsflug hefur legið niðri í allan morgun vegna óveðurs. vísir/gva
Innanlandsflug hefur legið niðri í allan morgun vegna óveðurs og bæði Vegagerðin og Veðurstofan hafa varað vegfarendur við mjög snörpum vindhviðum á nokkrum stöðum. Ekki er þó vitað um slys eða alvarleg óhöpp enda mjög lítil umferð á vegunum. Rok og rigning verður á höfuðborgarsvæðinu framundir kvöld.

Aðstæður til innanlandsflugs til Egilsstaða og Akureyrar verða kannaðar eftir hádegi, en horfur eru ekki góðar.

Þrátt fyrir hvassviðri á Keflavíkurflugvelli í morgun varð óveruleg röskun á komum véla að vestan og brottförum til meginlands Evrópu.

Eitthvað hefur verið um að lausamunir hafi verið að fjúka um, einkum suðvestanlands, og um tíma í nótt var óttast að vinnupallar væru að hrynja utan af nýbyggingu í Hafnarfirði, en viðkomandi verktaki mætti á vettvang með sínum mönnum til að hemja pallana.

Veðurstofan spáir stormi, eða 13 til 23 metrum á sekúndu úr þessu og fram undir kvöld, hvassast við suðvesturströndina og vaxandi rigningu. Þá varar hún við hvössum vindhvíðum á norðanverðu Snæfellsnesi, þar sem aftaka veður er til dæmis á Fróðárheiði, undir Eyjafjöllum, á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli, þar sem hviður hafa farið vel yfir 40 metar á sekúndu, en eins og áður sagði á að draga úr veðurofsanum undri kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×