Fótbolti

Iniesta: Bikarinn mun bjarga tímabilinu | El Clásico í beinni á Stöð 2 Sport

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Iniesta og félagar þurfa sigur til að bjarga tímabilinu.
Iniesta og félagar þurfa sigur til að bjarga tímabilinu. Vísir/Getty
Það verður boðið upp á El Clásico annað kvöld þegar spænsku stórliðin og erkifjendurnir Barcelona og Real Madrid mætast í úrslitaleik spænska Konungsbikarsins á Mestalla-vellinum í Valencia.

Stöð 2 Sport hefur gengið frá kaupum á leiknum og verður hann í beinni útsendingu annað kvöld. Útsendingin hefst klukkan 19.30.

Þetta gæti verið eini möguleiki Barcelona á titli á þessu tímabili en það dróst aftur úr í titilbaráttunni í deildinni um helgina þegar það tapaði óvænt fyrir Granada. Þá er liðið úr leik í Meistaradeildinni.

„Ég er sannfærður um að við getum unnið bikarinn en við þurfum að spila okkar besta leik gegn öflugum mótherja,“ segir Andrés Iniesta, leikmaður Barcelona, við spænska íþróttablaðið Sport.

„Við getum spilað vel og unnið. Að vinna bikarinn myndi gleðja stuðningsmennina og líklega bjarga tímabilinu. Það breytir samt engu fyrir liðið að vinna bikarinn. Við höfum tekið skref aftur á bak í deildinni og erum úr leik í Meistaradeildinni.“

„Við getum enn unnið deildina og bikarinn en svo þurfum við bara að gera það upp í sumar hvort þetta hafi verið gott tímabil eða slæmt,“ segir Andrés Iniesta.

Þegar Barcelona og Real Madrid mættust á Bernabéu á dögunum var boðið til veislu en Börsungar höfðu þá betur í sjö marka leik eins og sjá má hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×