Viðskipti innlent

Ingvi Jökull eignast H:N Markaðssamskipti

Samúel Karl Ólason skrifar
Aðsend mynd
Ingvi Jökull Logason hefur keypt alla hluti í auglýsingastofunni H:N Markaðssamskiptum. Áður hafði hann átt þriðjungshlut í fyrirtækinu á móti Ragnheiði K. Sigurðardóttur og Ólöfu Þorvaldsdóttur.

Í tilkynningu frá H:N segir að Ragnheiður muni áfram starfa á stofunni en Ólöf hafi verið starfsfólki til ráðgjafar.

„Það er óhætt að segja að Ingvi Jökull hafi fengið auglýsingafagið með móðurmjólkinni því fyrstu kynni hans af auglýsingaheiminum var þegar hann lék í mjólkurauglýsingu sem móðir hans stýrði. Hann hefur unnið hjá H:N Markaðssamskiptum í rúm tuttugu ár, þar af framkvæmdastjóri í 10 ár, og hefur komið að skipulagningu og framkvæmd margra af stærstu og áhrifaríkustu auglýsingaherferða sem ráðist hefur verið í hér á landi.“

Ingvi Jökull situr í dómnefndum erlendra og innlendra auglýsingasamkeppna og í ritstjórn Advertising IMC, útbreiddustu kennslubókar um auglýsingafræði á háskólastigi í Bandaríkjunum. Þá sinnir hann einnig ráðgjafahlutverki hjá stórum og smáum fyrirtækjum.

„Það verða ekki gerðar stórvægilegar breytingar á stofunni þó eignarhaldið hafi breyst, þessi yfirfærsla hefur staðið yfir í tvö ár. Við munum áfram sinna núverandi viðskiptavinum af bestu getu og halda sömu stefnu með grunnáherslu á árangursríkar herferðir,“ segir Ingvi Jökull.

„Við hjá H:N munum halda áfram að skemmta okkur og höfum bætt við okkur starfsfólki til að auka áherslu á hönnun og almannatengsl. Það er óhætt að segja að það séu spennandi tímar í auglýsingaheiminum.“

Meðal þeirra sem hafa verið ráðnir til H:N Markaðssamskipta að undanförnu er Högni Valur Högnason, formaður Félags íslenskra teiknara, sem starfar sem hugmynda- og hönnunarstjóri hjá H:N, og Kristján Hjálmarsson, fyrrverandi fréttastjóri Fréttablaðsins og Vísis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×