Fótbolti

Ingvar stóð í markinu á gamla heimavellinum: „Getur Hannes komið næst?“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ingvar Jónsson, markvörður Sandefjord í Noregi og íslenska landsliðsins í fótbolta, kíkti á æfingu 6. og 7. flokks hjá sínu uppeldisfélagi Njarðvík í vikunni og heilsaði upp á ungviðið.

Frá þessu er greint á Víkurfréttum en þar má finna skemmtilegt myndband af Ingvari að verja vítaspyrnur frá efnilegum fótboltastrákum úr Njarðvík þar sem Ingvar steig sjálfur sín fyrstu spor á fótboltavellinum.

Eðlilega voru krakkarnir ánægðir að sjá Ingvar og fékk hann margar spurningar. Ein þeirra var ansi heiðarleg en einn strákurinn spurði þjálfara sinn svo Ingvar heyrði: „Getur Hannes komið næst?“

Vildi hann fá aðalmarkvörðinn Hannes Þór Halldórsson í heimsókn í Njarðvíkurnar enda Breiðhyltingurinn orðin þjóðhetja eftir frammistöðu sína á Evrópumótinu. Ingvar átti erfitt með að leyna brosi við þeim ummælum, að því fram kemur á vef Víkurfrétta.

Allir krakkarnir fengu að spreyta sig á vítapunktinum gegn Ingvari og skoruðu meira að segja nokkrir á atvinnumanninn en eftir vítaspyrnukeppnina gaf Njarðvíkingurinn sér tíma til að árita allt hvað krakkarnir vildu fá áritun á.

Myndbandið af vítaspyrnunum má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×