Íslenski boltinn

Ingvar: Höfum aldrei mætt svona liði áður

Anton Ingi Leifsson á Laugardalsvelli skrifar
Ingvar horfir á eftir boltanum í markið.
Ingvar horfir á eftir boltanum í markið. vísir/getty
Ingvar Jónsson, markvörður Stjörnunnar, var að vonum svekktur eftir 3-0 tapið gegn Inter í kvöld.

„Þeir sköpuðu sér ekki mikið af opnum færum í fyrri hálfleik og það var hrikalega svekkjandi að fá á sig mark undir lok hálfleiksins.

„Við gerðum klaufaleg mistök og þeir refsa fyrir allt slíkt. Þeir eru hrikalega öflugir og við höfum aldrei mætt svona liði áður.

„Það hefði verið mjög gott að fara með 0-0 stöðu inn í hálfleik - þá hefði komið upp smá stress hjá þeim.

„Við ætluðum að halda hreinu í seinni hálfleik en við fengum strax á okkur mark sem sló okkur út af laginu,“ sagði Ingvar sem var nokkuð sáttur með kafla í seinni hálfleiknum.

„Við vissum að þeir væru ekki í besta leikforminu og að við myndum fá okkar tækifæri. En þetta gekk ekki í dag.“

Ingvar var ánægður með þann gríðarlega stuðning sem Stjarnan fékk í kvöld.

„Það var algjör snilld að upplifa þetta. Það var frábær stemmning og ótrúlegt að heyra stuðninginn frá sitthvorri áttinni. Þetta var magnað og eitthvað sem maður gleymir ekki í bráð,“ sagði Ingvar að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×