Innlent

Inflúensan að ganga niður: Hátt í 30 þúsund smituðust

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Haraldur Briem, sóttvarnalæknir.
Haraldur Briem, sóttvarnalæknir. vísir/gva
Gera má ráð fyrir að hátt í 30 þúsund manns hafi smitast af inflúensu það sem af er þessu ári. Inflúensan var heldur skæð í ár ef miðað er við síðustu tvö ár en líkur eru á að bólusetningar hafi ekki virkað sem skyldi.

Inflúensan náði hámarki í febrúar en er nú að ganga niður, að sögn Haralds Briem, sóttvarnalæknis. „Þeir sem hafa greinst með inflúensulík einkenni það sem af er ári eru 2980. Þumalputtareglan er sú að margfalda þá tölu með tíu, því það eru ekki allir sem leita til læknis,“ segir Haraldur.

Á síðasta ári greindust 1307 með inflúensuna og þar síðasta ári 2871. Hún var verst árið 2009 þegar 10 þúsund greindust með veiruna.

„Hún er ekkert svo frábrugðin frá ári til árs en hún er heldur meiri en í fyrra. Einkennin eru mjög áþekk, menn veikjast skyndilega og finna fyrir höfuðverk, vöðvaverkjum, hósta og hita. Aðrar pestir læðast meira að fólki, það fer að kvefast og svona en inflúensan kemur svolítið eins og kjaftshögg,“ segir hann.

Aðspurður hvort það sé þess virði að fara í bólusetningu við inflúensu segir hann svo vera. Þrátt fyrir það að þær virki ekki alltaf fullkomlega dragi þær verulega úr einkennum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×