Innlent

Indverjar prófa langdræga eldflaug

Samúel Karl Ólason skrifar
Agni-V skotið á loft árið 2013.
Agni-V skotið á loft árið 2013. Vísir/AFP
Indverjar hafa skotið á loft langdrægri eldflaug sem gæti borið kjarnorkuvopn. Eldflaugin var af gerðinni Agni-V og er hún talin vera háþróaðasta eldflaug Indlands. Líklegt þykir að yfirvöld Pakistan og Kína muni ekki taka vel í tilraunaskotið. Öll ríkin þrjú búa yfir kjarnorkuvopnum.

Varnarmálaráðuneyti Indlands segir að tilraunaskotið sé stórt stökk fyrir varnargetu ríkisins. Samkvæmt frétt CNN er talið að Indverjar búi yfir um 120 til 130 kjarnorkuvopnum. Indland, Pakistan og Norður-Kóreu eru meðal þrettán ríkja sem hafa ekki skrifað undir bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn.



Sérfræðingar sem CNN ræddi við segja að líklega muni tilraunaskotið ýta undir deilur Indlands og Kína. Undanfarin misseri hafa ríki deilt um héraðið Doklam í Himalayafjöllum. Með Agni-V gætu Indverjar skotið kjarnorkuvopnum að gervöllu Kína.

Samkvæmt Times of India var Agni-V eldflaug síðast prófuð í lok árs 2016. Þá gáfu yfirvöld Indlands út að um fjórða og síðasta prófið hefði verið að ræða. Fimmta prófið var svo framkvæmt í dag. Að þessu sinni var verið að prófa nýja skotaðferð sem gerir Indverska hernum í raun kleift að skjóta eldflauginni á loft hvaðan sem er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×