Innlent

Illviðri tefja siglingar sólarhringum saman

Svavar Hávarðsson skrifar
Skipið sé 14.600 tonn og siglir stöðugt óháð veðri og vindum.
Skipið sé 14.600 tonn og siglir stöðugt óháð veðri og vindum. Mynd/Eimskip
Vörugámar hafa tapast af tveimur skipum Eimskips á siglingaleiðinni á milli Íslands og Evrópu að undanförnu. Sjómenn muna vart annað eins sjólag þar sem hvert illviðrið hefur rekið annað frá því í nóvember. Persónulegir munir, eins og búslóðir, hafa ekki tapast við óhöppin, er talið víst.

Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, segir að 20 tapaðir vörugámar segi aðeins söguna að litlu leyti hvað varðar þær aðstæður sem sjómenn á flutningaskipum á siglingaleiðinni eru að vinna við.

„Þetta er eiginlega búinn að vera hreinn hryllingur frá því í byrjun nóvember. Veturinn byrjaði með djúpum lægðum sem skiluðu hörðum austanáttum en lagðist svo í hina áttina. Niðurstaðan er sú að svæðið á milli Færeyja og Íslands hefur verið eins og sjóðandi nornapottur, eins og skipstjórnarmennirnir lýsa þessu,“ segir Ólafur og bætir við að ölduhæð hafi dögum saman verið tíu til tólf metrar - eða eins og reisuleg skrifstofubygging.

„Menn geta kannski gert sér í hugarlund þessar vinnuaðstæður þar sem útilokað er að sofa sólarhringum saman, en heilt yfir hafa skipin verið einum til tveimur sólarhringum lengur á leiðinni vegna þessara aðstæðna,“ segir Ólafur.

Það hafsvæði sem er sýnu verst viðureignar er þar sem gámarnir fóru í sjóinn á Dettifossi, eða 70 til 80 sjó­míl­ur norðaust­ur af Fær­eyj­um. Annað skip Eimskips, Goðafoss, missti fyrr í þessum mánuði fjóra gáma í sjóinn á svipuðum stað.

Ólafur segir að í tilfelli Goðafoss hafi engar persónulegar eignir fólks tapast, og talið að það sama eigi við um gámana 20 sem nú eru farnir veg allrar veraldar. Þó eigi eftir að ganga úr skugga um það með óyggjandi hætti þegar Dettifoss kemur til heimahafnar.

„Það sem er þó mest um vert er að engin slys hafa orðið á áhöfnum skipanna, en um borð í Goðafossi og Dettifossi eru 13 manns í áhöfn. Því má þakka hversu vel menn eru þjálfaðir og leggja ekki út í neina óvissu - eins og að senda menn út á dekk þegar aðstæður eru hvað erfiðastar. Betri menntun sjómanna, sem aðrar þjóðir líta til, hefur skilað því að alvarlegum slysum hefur fækkað. Það er nefnilega ekkert sjálfgefið að sigla hér á milli á vetrum eins og þessum og skila öllum heilum í höfn. Það má þakka reynslu þeirra og menntun að þakka, og erfitt fyrir fjölskyldur þessara manna að vita af þeim við vinnu í þessum aðstæðum,“ segir Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×