Fastir pennar

Illa nýttur fjársjóður

Þórlindur Kjartansson skrifar
Almennt gildir sú regla í dýraríkinu að eftir því sem dýrin eru stærri þeim mun lengri er meðgangan. Meðganga fíla er um 22 mánuðir og geta mennskar mæður prísað sig sælar með sína níu í samanburði. En þar með er vitaskuld ekki öll sagan sögð, því ólíkt flestum dýrum þá fer því víðs fjarri að mennskt barn sé á nokkurn hátt tilbúið þegar því er skilað út í heiminn. Á meðan kálfar og lömb standa óstudd upp á fyrstu mínútum jarðvistarinnar þá mega afkvæmi okkar mannanna kallast meira eða minna ósjálfbjarga fyrstu tuttugu árin eftir fæðingu.

Brösug byrjun

Og ekki nóg með það. Allra fyrstu árin reyna börnin til þrautar á þolrif líkamlegrar og andlegrar heilsu foreldranna með óútreiknanlegri svefnhegðun, sífelldum veikindum og stórhættulegri forvitni. Við taka örfá ár skemmtilegra krúttlegheita áður en afkvæmin gerast aftur sjálfum sér og umhverfi sínu stórhættuleg.

En þrátt fyrir brösuga byrjun mannsævinnar dregur enginn í efa mikilvægi þess að viðhalda hringrás lífsins—og náttúran hefur séð til þess að fæstir telja eftir sér þá fyrirhöfn sem fylgir því að koma nýjum einstaklingum til þroska.

Úr hvítvoðungi í manneskju

Eftir því sem samfélagið verður flóknara þá lengist tíminn sem þarf til þess að undirbúa einstakling til þess að verða fullgildur þátttakandi í mannlífinu. Ekki eru margar kynslóðir síðan hugtakið „unglingur“ fór að hafa merkingu. Áður fyrr var stór hluti starfa nefnilega þess eðlis að líkamlegur þroski var nægjanleg forsenda til þess að geta sinnt þeim. Eftir því sem viðfangsefnin reyna meira á sköpunargáfu, þekkingu, reynslu—og svo ekki sé talað um visku—þá tekur einfaldlega lengri tíma að hnoða úr hvítvoðungi fullsteypta mannveru.

Nú þegar enginn efast lengur um að „unglingar“ eru ekki fullorðnir einstaklingar er smám saman að verða viðurkenndara að æskuárin teygjast jafnvel ennþá lengra inn á fullorðinsárin. Fólk bíður sífellt lengur með að flytja að heiman, giftast, stofna fjölskyldu og koma sæmilegri reiðu á líf sitt.

Fólk flakkar örar á milli áhugamála og starfa, heldur áfram að sækja skóla og mennta sig langt fram eftir aldri og lifir þar að auki mun lengur við góða heilsu en fyrri kynslóðir, enda reyna flest störf nútímans meira á vitsmunalega og andlega getu heldur en líkamlegt þrek. Fjölmörg störf eru nefnilega þess eðlis að það er engin heilbrigð skynsemi fólgin í því að þrýsta fólki út úr þeim við þann handahófskennda viðburð að afmælisdagur númer 68 eða 70 rennur upp.

Elstur og bestur

Í næstu viku verða þau tímamót í Bandaríkjunum að íþróttaþulurinn Vin Scully lýsir sínum síðasta leik. Hann er rödd hafnaboltaliðsins Los Angeles Dodgers og fyrir löngu orðinn að lifandi goðsögn. Hann lýsti sínum fyrsta leik árið 1950 og er þetta því 67. tímabilið hans.

Í bandarískum íþróttum—sérstaklega hafnabolta—eru góðir íþróttaþulir hafðir í sérstöku öndvegi. En Vin Scully trónir yfir öllum öðrum. Hann talar ljóðrænt og fallega, röddin er blíð og blæbrigðamikil, hugmyndaauðgin óþrjótandi, þekkingin botnlaus og af hverri setningu hans ljómar manngæska og viska. Það er því engin nostalgísk meðaumkun sem gerir það að verkum að engum hefur dottið í hug að skipta Scully út fyrir einhvern yngri. Þótt hann sé kominn vel á 89. aldursár þá er hann almennt álitinn sá besti í sínu fagi.

Scully beitir agaðri vinnubrögðum en flestir kollegar hans, enda er sagt að hann mæti þremur til fjórum klukkutímum fyrir hvern einasta leik, og verji einum klukkutíma í að æfa sig í míkrafóninn—fara yfir tölfræðilegar staðreyndir og sögumola sem hann hefur í handraðanum til þess að segja þegar framrás leiksins býður upp á. Hann kynnir sér sögu leikmannanna, finnur sögulegar hliðstæður og kryddar lýsingar sínar með viðeigandi fróðleiksmolum um mannkynssögu, vísindi, bókmenntir, stjórnmál, trúarbrögð, eða hvaðeina sem honum finnst passa hverju sinni.

Þrátt fyrir háan aldur og langa reynslu hefur Scully aldrei fest sig í fortíðinni og gerir sér engar grillur um að sólin hafi skinið bjartar á gærdaginn heldur en daginn í dag. Hann er móttækilegur fyrir nýjungum þótt hann sé ekki ginnkeyptur fyrir dægurflugum. Hann leyfir sér stundum að velta fyrir sér hvernig standi á skeggvexti og húðflúrum leikmannanna nú til dags—en aldrei í tóni sem gefur til kynna hneykslan eða fordæmingu. Hann segir sögur frá fyrri tíð, en leyfir sér líka að verða barnslega spenntur yfir því sem er að gerast á líðandi stundu. Honum hefur með hugarfari sínu tekist að verða aldrei ýkja gamall þótt vissulega sé orðið ansi langt síðan hann fæddist.

Hið frábæra starf Vin Scully byggist því algjörlega á góðri vitsmunalegri og andlegri heilsu—en felur í sér mjög takmarkaða líkamlega áreynslu.

Ung og fersk á gamals aldri

Nú á dögum—þegar fólk þarf lengri tíma til þess að fullorðnast og heilsa flestra dugir lengur frameftir aldri—verður stöðugt mikilvægara að finna leiðir til þess að sníða samfélagsgerðina eftir þessum breytingum. Fullfrískt fólk á áttræðis- og níræðisaldri mun að öllum líkindum hæglega geta haldið áfram að sinna fjölmörgum af þeim störfum sem framtíðin býður upp á. Þekking, reynsla og viska mun vega sífellt þyngra á meðan líkamlegt atgervi skiptir stöðugt minna máli.

En til þess að fólk geti haldið áfram að sinna nytsamlegum störfum fram eftir aldri þarf að eiga sér stað sú hugarfarsbreyting, að starfsævin sé ekki bara tröppugangur upp á við, heldur sé full sæmd í því að draga hægt og rólega úr ábyrgð og álagi undir lok starfsævinnar en halda áfram að leggja sitt af mörkum og styðja yngri kynslóðirnar í viðfangsefnum samtímans.

Þannig getum við vonandi leyft hinum vannýtta fjársjóði, sem er starfsorka eldri kynslóða, að njóta sín til fulls.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu






×