Erlent

Ílangur gestur utan sólkerfisins

Kjartan Kjartansson skrifar
Teikning listamanns af því hvernig 'Oumuamua gæti litið út.
Teikning listamanns af því hvernig 'Oumuamua gæti litið út. ESO/M. Kornmesser
Rannsóknir á einstöku smástirni sem þaut í gegnum sólkerfið í síðasta mánuði hafa leitt í ljós að það kom utan úr geimnum á milli stjarnanna. Smástirnið er einnig sérstakt í laginu og ólíkt öðrum fyrirbærum sem fundist hafa í sólkerfinu.

Mikla athygli vakti þegar sjónauki á Havaí kom auga á dauft fyrirbæri á ferð um sólkerfið 19. október. Þegar braut smástirnisins var reiknuð út kom í ljós að uppruni þess var utan sólkerfisins okkar ólíkt öllum öðrum halastjörnum og smástirnum sem menn hafa fundið.

Stjörnufræðingar þurftu að hafa snarar hendur til að rannsaka smástirnið áður en það hyrfi á braut. Niðurstöður þeirra rannsókn birtust í vísindaritinu Nature í dag.

Gæti hafa flakkað um í hundruð milljónir ára

Smástirnið, sem hefur fengið nafnið ‘Oumuamua (1l/2017 U1), virðist dökkrautt að lit, afar ílangt og málm- eða bergkennt, að því er segir í frétt á vef Evrópsku stjörnustöðvarinnar á Suðurhveli (ESO). VLT-sjónauki ESO var notaður til að fylgjast með ‘Oumuamua.

Þá virðist sem engin virkni sé á hnullungnum og fundust engin merki um ryk frá honum. Það er talin vísbending um að smástirnið sé þétt í sér og líklega úr bergi eða innihaldi mikið af málmum. Það er talið vera um fjögur hundruð metra langt.

Talið er að ‘Oumuamua hafi getað flakkað um Vetrarbrautinu í hundruð milljónir ára áður en smástirnið heimsótti sólkerfið okkar. Áætlað er að millistjörnusmástirni af þessu tagi þjóti í gegnum innra sólkerfið um það bil einu sinni á ári. Fyrirbæri af þessu tagi eru hins vegar dauf og hefur mönnum skort tæknilega getu til að finna þau fram að þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×