Innlent

Ikea í Svíþjóð hættir áfengissölu: Framkvæmdastjórinn á Íslandi á ekki von á breytingum

Birgir Olgeirsson skrifar
Þórarinn Ævarsson framkvæmdastjóri Ikea á Íslandi.
Þórarinn Ævarsson framkvæmdastjóri Ikea á Íslandi. Vísir
Sænski húsgagnaframleiðandinn Ikea hefur ákveðið að hætta að selja áfengi á veitingastöðum sínum í Svíþjóð í haust. Ástæðan fyrir þessari ákvörðun er sögð á vef Svenska dagbladet vera að eftirspurnin eftir áfengi í verslunum Ikea í Svíþjóð sé ekki mikil.

Á vef sænska dagblaðsins kemur fram að Ikea hafi selt vín og bjór á veitingastöðum sínum í tíu ár í Svíþjóð en nú sé því tímabili lokið.

Líklegt að þetta sé eingöngu bundið við Svíþjóð

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri Ikea á Íslandi, hafði ekki heyrt af þessum fréttum þegar Vísir náði í hann en eftir að hafa lesið yfir sænsku fréttina sýndist honum á öllu að um innanhúss ákvörðun sé að ræða í Svíþjóð.

„Mér sýnist það á öllu án þess að geta fullyrt um það,“ segir Þórarinn sem tekur fram að ef Ikea hefði tekið þá ákvörðun að hætta að selja áfengi á veitingastöðum sínum í öllum þeim löndum sem Ikea er með rekstur þá hefði hann væntanlega fengið að vita af því.

Framkvæmdastjóri Ikea á Íslandi segir áfengissöluna í takt við væntingar hér á landi. Hún sé ekki mikil enda sé ekki vilji fyrir því að verslunin sé drykkjustaður. Vísir/Stefán
„Ég fæ væntanlega einhverjar meldingar um það fljótlega ef það verða einhverjar breytingar á. Ég hef ekki heyrt neitt um það, þetta er þannig ákvörðun að ég er viss um að maður væri búinn að fá að vita það með einhverjar fyrirvara ef til stæði.“

Hann segir að í Ikea í Skotlandi sé áfengissala stór hluti af veltu veitingasviðs. Þar má selja áfengi út úr versluninni. „Þar er ekki svona einangrunar dæmi eins og á Íslandi og í Svíþjóð. Þeir eru að selja áfenga drykki í sænsku búðinni og rjóminn af veltunni þar eru áfengir peru- og appelsínudrykkir. Mér þykir skrýtið ef þeir ætla að fara að hætta þessu alls staðar.“

Áfengissala á Íslandi eftir væntingum

Hann segir áfengissölu í Ikea á Íslandi eftir væntingum. „Hún er ekki stór, hún er í takt við það sem vorum að vonast eftir. Við viljum ekki að þetta sé drykkjustaður. Þetta er fjölskyldustaður. Við viljum ekki að hún sé mikil en við viljum að þessi valkostur sé í boði.“

Ikea á Íslandi er til húsa í Garðabæ og hefur lengi vel verið eini staðurinn í því sveitarfélagi sem hefur haft vínveitingaleyfi. Þórarinn vonast til þess að fyrirtækið haldi áfram að selja áfengi. „Við munum allavega berjast gegn því ef gera á breytingar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×