Innlent

Íhuga inntökupróf í Verzló strax næsta vor

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Skólameistari Verzlunarskólans segir nýtt einkunnakerfi sem tók við af samræmdum prófum hafa reynst illa og að alvarlega sé íhugað að taka upp inntökupróf strax næsta vor. 

Í fréttum okkar í gær sögðum við frá því að meðaleinkunnir nemenda sem sækja um skólavist í Verzlunarskólanum hafi hækkað mikið frá því að samræmd próf voru afnumin árið 2008. Fyrir það höfðu samræmd próf fimmtíu prósent vægi á móti skólaprófum.  Nú er ekkert utanumhald eða sameiginlegur mælikvarði á námsmat milli grunnskólanna og því liggur ekki það sama að baki einkunnum þvert á skóla. Sumstaðar vega lokapróf til dæmis þungt en annars staðar ástundun eða vinna yfir allt skólaárið.

„Það er ekki þar með sagt að eitt sé rétt og hitt rangt. En þetta er ekki sanngjarn mælikvarði til að taka nemendur inn. Það eru einhverjir skólar þar sem er áberandi að nemendur séu með lægri einkunnir sen eru lægri heldur en í öðrum skólum en þeir standa sig alveg jafn vel hér hjá okkur," segir Ingi Ólafsson skólameistari Verzlunarskólans.

Því sé verið að skoða að setja á inntökupróf næsta haust.

„Það er ekki bara að grunnskólinn verði að gera eitthvað, við þurfum að endurskoða líka okkar inntöku. Það er hugmynd að vera hér með inntökupróf og prófin eru þá þannig að nemandinn þarf ekkert endilega að ná þeim heldur að við notum þetta sem tæki til að raða nemendum,“ segir Ingi.

Flestir þeirra skólastjórnenda í framhaldsskólum sem fréttastofa náði tali af í dag voru sammála um að meðaleinkunnir nemenda sem fengu inngöngu í skólann hefðu tekið stökk haustið 2009.

„Sérstaklega var þetta fyrsta árið eftir að samræmdu prófin féllu niður. Þá voru dæmi þess að nemendur kæmu inn með mjög ósanngjarnt einkunnamat vegna þess að þau voru að fá einkunnir sem þau stóðu engan veginn undir,“ segir Yngvi Pétursson rektor Menntaskólans í Reykjavík. Hann telur að samræmd próf hafi verið æskilegri mælistika á stöðu nemenda en námsmatið sem nú er notað.

„Við höfum verið að skoða hvernig okkar nemendum hefur vegnað en það þyrfti náttúrlega að rannsaka þetta betur. Taka fyrir allan fjöldann og sjá hvernig munurinn hefur verið,“ segir hann. 


Tengdar fréttir

Vill fá samræmd próf aftur

Meðaleinkunn nemenda sem útskrifast úr grunnskólum landsins hefur hækkað ört frá því samræmd próf voru aflögð árið 2008. Skólameistari segir einkunnaverðbólgu eiga sér stað. Hann vill sjá samræmd próf á nýjan leik.

Menntakerfi á brauðfótum

Undanfarin misseri hefur verið um fátt eins mikið rætt og styttingu framhaldsskólans og þá kerfisbreytingu sem á að ganga í garð á hausti komanda í flestum framhaldsskólum landsins.

Ekki verið rætt að taka aftur upp samræmd próf

Einkunnir þeirra sem sótt hafa um skólavist í Verslunarskólanum hafa hækkað töluvert frá því að samræmd próf að vori voru afnumin árið 2008 og velta skólastjórnendur þar fyrir sér hvort verið sé að leggja réttan mælikvarða á hæfni nemenda við lok grunnskólans. Formaður skólamálanefndar segir ekki hafa komið til umræðu að breyta fyrirkomulaginu eins og það er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×