Erlent

Íhuga að flýta þvingunum eftir nýjustu eldflaugatilraun Norður-Kóreu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Nýjasta eldflaugatilraun Norður-Kóreu gæti valdið því að bandarísk yfirvöld flýti áformum sínum um hertar viðskiptaþvinganir gegn ríkinu.

„Það eru líkur á því að það verði flýtt fyrir einhverjum hluta,“ er haft eftir bandarískum embættismanni í frétt Reuters.

„Eitthvað sem er nú þegar búið að undirbúa og er fullmótað.“

Til að mynda gætu bandarísk hernaðaryfirvöld sent fleiri skip og flugvélar á svæðið. Nú þegar hafa Bandaríkjamenn sent flugmóðurskipið USS Carl Vinson og fylgiskip þess. Þá bættist kjarnorkukafbáturinn USS Michigan í flotann á dögunum en um borð í honum eru 154 Tomahawk flugskeyti og sextíu sérsveitarmenn.

Vilja stöðva allar tilraunir

Greint var frá því í vikunni að Bandaríkin hygðust herða viðskiptaþvinganir gegn Norður-K‘oreu og beita ríkið auknum pólitískum þrýstingi með það að markmiði að stöðva eldflauga- og kjarnorkuvopnaáætlanir ríkisins. 

Mikil spenna er á svæðinu við Kóreuskagann en Bandaríkin og Suður-Kórea hafa haldið því fram að útlit sé fyrir kjarnorkuvopnatilraun í Norður-Kóreu.

Yfirvöld Norður-Kóreu hafa sett sér að markmiði að koma fyrir svokölluðum „kjarnaoddi“ (nuclear warhead) á langdræga eldflaug (ICBM), sem næði til skotmarka um allan heim. Þá hafa yfirvöld framkvæmt fimm kjarnorkutilraunir á undanförnum árum auk þess sem eldflaugum hefur ítrekað verið skotið á loft.

Stjórnvöld Kína hafa varað stjórnendur Norður-Kóreu við því að framkvæma frekari kjarnorkuvopnatilraunir. Ef það yrði gert myndu Kínverjar beita einræðisríkið viðskiptaþvingunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×