Enski boltinn

Iheanacho ætlar að sjá um markaskorun fyrir City á meðan Agüero er í banni

Kelechi Iheanacho, framherji Manchester City, treystir sér til að sjá um markaskorun fyrir enska liðið á næstunni á meðan Argentínumaðurinn Sergio Agüero tekur út fjögurra leikja bann.

Agüero verður frá langt fram í desember eftir að fá rautt spjald gegn Chelsea um síðustu helgi en þessi magnaði framherji er búinn að skora 16 mörk á tímabilinu.

Iheanacho hefur fengið fá tækifæri undir stjórn Pep Guardiola en hann þakkaði traustið í gærkvöldi þegar hann skoraði jöfnunarmark City gegn Celtic í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar í gærkvöldi.

Manuel Pellegrini henti Nígeríumanninum unga í liðið á síðustu leiktíð en þá skoraði hann fjórtán mörk. Nú hefur hann aðeins byrjað sex leiki það sem af er vetri.

„Þetta er stórt tækifæri fyrir mig núna,“ sagði Iheanacho við fréttamenn eftir leikinn í gær. City er komið áfram í 16 liða úrslitin en það hafnaði í öðru sæti síns riðils.

„Sergio verður ekki með á næstunni þannig ábyrgðin er mín og ég tek henni og reyni að fylla í hans skarð. Ég þarf að leggja mikið á mig til að sýna hvað ég get og sanna mig fyrir liðinu. Við þurfum á stigum að halda í úrvalsdeildinni,“ sagði Kelechi Iheanacho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×