Körfubolti

Iguodala ætlar að harka af sér og spila oddaleikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Iguodala ræðir við blaðamenn um oddaleikinn sem fer fram í nótt.
Iguodala ræðir við blaðamenn um oddaleikinn sem fer fram í nótt. vísir/afp
Andre Iguodala, leikmaður Golden State Warriors, ætlar að spila oddaleikinn gegn Cleveland Cavaliers í nótt þrátt fyrir bakmeiðsli.

Iguodala stífnaði upp í baki í sjötta leik liðanna aðfaranótt föstudags og gat lítið beitt sér. Hann spilaði þó í 30 mínútur en skoraði aðeins fimm stig og átti ekki roð í LeBron James í vörninni. Cleveland vann leikinn 115-101.

Sjá einnig: Keypti tvo miða á sjöunda leikinn á 6,2 milljónir stykkið

Iguodala hefur verið í meðferð frá sjötta leiknum í Cleveland og segir að hann ætli að reyna að spila leikinn í nótt sem er sá síðasti á tímabilinu í NBA.

Iguodala er gríðarlega mikilvægur hlekkur í liði Golden State en hann var valinn verðmætasti leikmaður lokaúrslitanna í fyrra, þar sem Golden State vann Cleveland 4-2.

Golden State-liðið hefur orðið fyrir talsverðum skakkaföllum vegna meiðsla í þessari úrslitakeppni. Stjórstjarna liðsins, Stephen Curry, missti af nokkrum leikjum og þá er miðherjinn Andrew Bogut úr leik vegna hnémeiðsla.

Sjá einnig: Curry og Kerr sektaðir

Golden State komst í 3-1 í einvíginu við Cleveland og virtist vera með öll tromp á hendi. En James og félagar neituðu að gefast upp og tryggðu sér oddaleikinn sem fer fram í Oracle Arena, heimavelli Golden State, í nótt.

Oddaleikur Golden State og Cleveland hefst klukkan tólf á miðnætti og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×