Innlent

ÍE þvær hendur sínar af staðhæfingum þess efnis að einbirni lifi lengur

Jakob Bjarnar skrifar
Kára krossbrá þegar hann sá forsíðu Moggans í morgun.
Kára krossbrá þegar hann sá forsíðu Moggans í morgun.
Hjá Íslenskri erfðagreiningu eru menn með böggum hildar vegna forsíðufréttar Morgunblaðsins, sem vakið hefur nokkra athygli, að vonum. Fyrirsögnin er „Einbirni sögð lifa lengur“.

Þar er vitnað í Róbert Lynch, doktorsnema við háskólann í Missouri í Columbia, og sagt að rannsókn hans sé unnin upp „uppúr upplýsingum frá Íslenskri erfðagreiningu“. Inntak niðurstaðna rannsókna Lynch er að þeir einstaklingar sem koma úr stórum fjölskyldum eignist færri börn og lifa skemur en þeir sem koma úr litlum fjölskyldum.

Ljóst má vera að Kára Stefánssyni og hans fólki hjá ÍE brá nokkuð í brún þegar það leit forsíðu Moggans í dag, ef marka má afdráttarlausa yfirlýsingu sem fyrirtækið sendi frá sér nú rétt í þessu. Þar er eftirfarandi áréttað:

„Robert Lynch vann um nokkurra mánaða skeið að rannsóknum hjá Íslenskri erfðagreiningu í samvinnu við vísindamenn fyrirtækisins. Vísindagreinin sem fréttin byggir á virðist lýsa þeirri vinnu. Það var hins vegar mat vísindamanna ÍE að rannsóknir Roberts væru ekki af miklum gæðum og að uppkast að vísindagrein sem hann deildi með þeim væri ekki birtingarhæft.“

Því þvær ÍE algjörlega hendur sínar af öllum þeim staðhæfingum sem koma fram í fréttinni og vísindagreininni og harmar að nafn fyrirtækisins skuli tengt við þær, segir jafnframt í yfirlýsingunni: „ÍE vill líka árétta að Robert fékk engin gögn með sér í nesti þegar hann yfirgaf ÍE og virðist grein sú sem er vitnað til í fréttinni vera byggð á töflum af vafasömum niðurstöðum sem urðu til meðan hann dvaldi í Vatnsmýrinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×