Viðskipti innlent

Iðngreinar sækja í sig veðrið

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Uppsveifla hefur verið í byggingariðnaði sem skilar sér í auknum áhuga ungs fólks á greinum sem honum tengjast.
Uppsveifla hefur verið í byggingariðnaði sem skilar sér í auknum áhuga ungs fólks á greinum sem honum tengjast. vísir/vilhelm
Minnst atvinnuleysi er meðal iðnmenntaðra og í starfsgreinum sem tengjast iðn- og vélavinnu samkvæmt atvinnuleysistölum frá Vinnumálastofnun. Iðnmenntaðir eru til að mynda einungis níu prósent þeirra sem voru skráðir atvinnulausir í júlí en voru um fimmtán prósent atvinnulausra fyrst eftir kreppu.

Skólameistarar framhaldsskóla sem bjóða upp á iðnmenntun eru sammála um að vakning sé í samfélaginu um að iðnmenntun sé góður kostur og bjóði upp á starfsöryggi. Aðsókn hefur aukist jafnt og þétt síðustu árin í nokkra stærstu skólana. Í Verkmenntaskólanum á Akureyri eru til að mynda óvenju margir nýnemar í ár.

„Það er almennt mjög góð aðsókn í starfsnám af öllu tagi hér við skólann,“ segir Hjalti Jón Sveinsson skólameistari. „Húsasmíðin er að sækja í sig veðrið eftir nokkurra ára deyfð í kjölfar efnahagshrunsins og einnig húsgagnasmíðin. Einnig er mjög mikil aðsókn í rafvirkja- og rafeindanám.“

Baldur Gíslason, skólameistari Tækniskólans, tekur í sama streng og segir byggingagreinar á uppleið. „Tölvubrautin er þó langvinsælasta braut skólans og þangað fara um 45 prósent af þeim nýnemum sem við tökum inn.“

Ingi Bogi Bogason, aðstoðarskólameistari Borgarholtsskóla, segir uppsveiflu í samfélaginu skila sér í auknum skilningi á möguleikum iðn- og tæknimenntunar enda geti atvinnulífið tekið á móti um helmingi fleira iðnmenntuðu fólki. „Þetta er menntun sem skilar fólki strax störfum og góðum launum. Ungt fólk virðist vera að kveikja á þessum möguleika,“ segir Ingi Bogi. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×