Viðskipti innlent

Icelandair kaupir nýjan flughermi

Haraldur Guðmundsson skrifar
Þessi mynd var tekin þegar Boeing 757 flughermirinn í Hafnarfirði var formlega tekin í notkun
Þessi mynd var tekin þegar Boeing 757 flughermirinn í Hafnarfirði var formlega tekin í notkun Icelandair
TRU Flight Training Iceland, dótturfélag Icelandair, hefur skrifað undir samning um kaup á nýjum Boeing 737MAX flughermi af TRU Simulation + Training í Kanada. Samkvæmt tilkynningu frá Icelandair er fyrirtækið fyrst flugfélaga til að festa kaup á slíkum hermi.

„Stefnt er að því að taka flugherminn í notkun sumarið 2018 í kjölfarið á því að fyrstu vélar af gerðinni Boeing 737MAX hefja sig til flugs í áætlunarflugi Icelandair snemma á næsta ári. Ný bygging, áföst þjálfunarsetri félagsins í Hafnarfirði, verður reist yfir herminn. Flughermar eru notaðir við nýþjálfun og reglubundna þjálfun flugmanna,“ segir í tilkynningunni.

Þar er rifjað upp að fyrir tveimur árum tók dótturfélagið í notkun Boeing 757-200 flughermi og fluttist þá stærstur hluti þjálfunar flugmanna Icelandair inn í landið og til Hafnarfjarðar.

„Ákvörðunin um kaupin á 737MAX flughermi byggir einkum á hinum miklu vinsældum þessarar nýju flugvélagerðar en hún hefur selst hraðar en nokkur önnur vél í sögu Boeing. Um 3600 Boeing 737MAX hafa þegar verið seldar, til viðbótar við þær níu þúsund 737 vélar sem fyrir eru í heiminum, og ljóst að mikil spurn verður eftir flughermiþjálfun flugmanna þegar vélarnar koma á markað. Stefnt er að því að öll þjálfun flugmanna sem fljúga hinum sextán 737MAX vélum sem Icelandair hefur pantað verði hér á landi, og hefjist skömmu eftir að fyrstu vélarnar koma frá og með sumrinu 2018. Einnig mun hermirinn verða leigður út til þjálfunar flugmanna nokkurra þeirra fjölmörgu erlendu flugfélaga sem reka munu stóra flota MAX véla næstu áratugina,“ segir Guðmundur Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri TRU Flight Training Iceland, í tilkynningunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×