Innlent

Icelandair hættir áætlunarflugi vegna ástandsins í Úkraínu

vísir/gva
Ástandið í Úkraínu og veiking rúblunnar eru meðal ástæðna þess að Icelandair hættir flugi til eina áfangastaðar síns í austurhluta Evrópu. Síðasta ferðin til Rússlands í ár var farin í síðustu viku og forsvarsmenn félagsins ætla ekki að taka upp þráðinn í vor.

Rússneskum ferðamönnum á Íslandi fjölgaði um nær helming í fyrra þegar Icelandair hóf flug til Sankti Pétursborgar. Þá hafði aldrei áður verið boðið upp á áætlunarflug á milli Íslands og Rússlands og nú er ljóst að það fellur niður að nýju.

„Eftirspurn eftir ferðunum minnkaði vegna ástandsins í stjórnmálum Rússa og Úkraínumanna, en einnig vegna veikingar á rúblunni sem gerði Íslandsferðir, sem og aðrar utanlandsferðir, mun dýrari en áður fyrir Rússa,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair í samtali við vefinn Túristi.is, sem fyrst greindi frá. Hann segir Rússland ennþá álitlegan markað fyrir félagið en að fjarlægðin til margra borga í Austur-Evrópu geri að verkum að Icelandair kjósi frekar að bjóða upp á flug frá stórborgum álfunnar sem liggi nær Íslandi.

Það sem af er þessu ári hefur rússneskum ferðamönnum á Íslandi fjölgað um fjórtán prósent en í heildina hefur ferðamönnum hér á landi fjölgað um tuttuguogþrjú og hálft prósentustig, samkvæmt talningu Ferðamálastofu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×