Viðskipti innlent

Iceland með mesta úrvalið en oftast hæsta verðið

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Verðmunurinn var allt að 177 prósent.
Verðmunurinn var allt að 177 prósent. vísir/pjetur
Verslunin Iceland býður upp á mesta úrvalið en er oftast með hæsta verðið, samkvæmt nýrri verðkönnun ASÍ á matvöru sem gerð var í átta verslunum í vikunni.

Mesti verðmunurinn reyndist 177 prósent en það var á rauðum eplum sem voru ódýrust á 198 krónur kílóið í Bónus en dýrust í Iceland þar sem kílóið kostar 549 krónur. Verðmunurinn var mestur í flokki ávaxta. Einnig var hann mikill á frosnum heilum kjúklingi, eða 135 prósent þegar skoðað var ódýrasta kílóverð í hverri verslun fyrir sig. Hæsta verðið var í Krónunni á Granda þar sem kílóið var á 935 krónur en lægst í Bónus Holtagörðum þar sem kílóverð var 398 krónur.

Minnsti verðmunurinn í könnuninni var 11 prósent á stórri dós af bláberja skyri frá Skyr.is. Hæsta verð var 399 kr í Iceland Engihjalla en lægsta verðið í Bónus Holtagörðum og í Krónunni Granda 359 kr en meðalverðið var 373 kr.

Bónus Holtagörðum átti til 56 af þeim 63 vörum sem voru kannaðar og var í 34 tilfellum með lægsta verðið. Iceland Engihjalla átti 61 af 63 vörum sem skoðaðar voru en í 33 tilfellum var Iceland með hæsta vöruverðið í könnuninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×