Handbolti

ÍBV vann Gróttu og stal fjórða sætinu | Þessi lið mætast í úrslitakeppninni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Vera Lopes skoraði átta mörk gegn deildar- og bikarmeisturunum í kvöld.
Vera Lopes skoraði átta mörk gegn deildar- og bikarmeisturunum í kvöld. vísir/þórdís
ÍBV gerði sér lítið fyrir og vann deildar- og bikarmeistara Gróttu, 22-20, á útivelli í lokaumferð Olís-deildar kvenna í handbolta í kvöld.

Eyjakonur voru tveimur mörkum undir í hálfleik, 10-8, en komu sterkar til leiks í þeim síðari sem þær unnu með fjórum mörkum og leikinn með tveimur, 22-20.

Vera Lopes átti stórleik fyrir ÍBV og skoraði átta mörk en Díana Dögg Magnúsdóttir og Ester Óskarsdóttir skoruðu fjögur mörk hvor. Laufey Ásta Guðmundsdóttir skoraði fimm mörk fyrir Gróttu.

Með sigrinum skaust ÍBV upp fyrir Hauka í fjórða sæti deildarinnar. Bæði lið hafa 28 stig en ÍBV fær fjórða sætið á betri árangri í innbyrðis viðureignum.

Munurinn á liðunum er ævintýrlega lítill. Haukar unnu ÍBV með einu marki í Eyjum, 28-27, en Eyjakonur unnu tveggja marka sigur að Ásvöllum þegar liðin mættust þar og ná fjórða sætinu þökk sé því. Rimma liðanna í átta liða úrslitum lofar því góðu.

Haukar hefðu getað haldið fjórða sætinu á stigum með sigri á Fram í kvöld en það tókst ekki. Fram vann öruggan ellefu marka sigur, 30-19, þar sem Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði fimm mörk fyrir Safamýrarstúlkur.

Úrslit lokaumferðarinnar:

Fylkir - FH 27-20

Fram - Haukar 30-19

Valur - Selfoss 30-19

ÍR - KA/Þór 20-22

Grótta - ÍBV 18-20

Stjarnan - HK 32-20

Lokastaðan: Grótta 38, Fram 36, Stjarnan 34, ÍBV 28, Haukar 28, Valur 26, Fylkir 22, Selfoss 18, HK 17, FH 9, KA/Þór 7.

Viðureignirnar í átta liða úrslitum:

Grótta - Selfoss

Fram - Fylkir

Stjarnan - Valur

ÍBV - Haukar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×