Innlent

Íbúum stafar ekki bráð hætta af mengun

Svavar Hávarðsson skrifar
Kvartanir frá íbúum vegna mengunar frá verksmiðjunni skipta hundruðum síðustu misserin.
Kvartanir frá íbúum vegna mengunar frá verksmiðjunni skipta hundruðum síðustu misserin. vísir/vilhelm
„Það var niðurstaða fundarins að íbúum á svæðinu stafi ekki bráð hætta af losun frá verksmiðju United Silicon. Það er hins vegar mikilvægt að það verði dregið úr þessari losun arsens og Umhverfis­stofnun mun fylgja því eftir,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun.

Sigrún var boðuð á fund Nefndar um sóttvarnir í gær vegna upplýsinga um að eiturefnið arsen hefði mælst tuttugufalt yfir því sem gert er ráð yfir í umhverfismati verksmiðjunnar í Helguvík.

Sveitarstjórnarmenn í Reykjanesbæ hafa farið fram á að verksmiðjunni verði lokað þangað til lokið er úrbótum til að uppræta mengunina.

Aðspurð um hvort lokun verksmiðju United Silicon, til lengri eða skemmri tíma, komi til greina segir Sigrún að fyrirtækið vinni að umbótum þessa dagana og verkfræðileg úttekt stofnunarinnar standi fyrir dyrum.

„Það var niðurstaðan að halda þessu í þeim farvegi sem það er í. Það þarf að hafa það í huga að til að greina allt sem við þurfum að vita þarf verksmiðjan að vera í gangi, t.d. lyktaráhrifin. Þetta er því ekki alveg svo einfalt en það eru þegar talsverðar takmarkanir í dag,“ segir Sigrún og vísar til þess að aðeins annar ofninn sem leyfi er fyrir er nýttur.

United Silicon sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem segir að rangfærslur séu í umfjöllun um arsen frá verksmiðjunni. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×