Viðskipti innlent

Íbúðir í eigu Íbúðalánasjóðs standa auðar

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Frá Hveragerði Þrjár fjölskyldur komu við hjá bæjarstjóranum í gær vegna brýns húsnæðisvanda í Hveragerði.
Frá Hveragerði Þrjár fjölskyldur komu við hjá bæjarstjóranum í gær vegna brýns húsnæðisvanda í Hveragerði. Vísir/Vilhelm
„Það bráðvantar leiguhúsnæði. Ég man ekki eftir öðru eins ástandi og núna, fólk er hreinlega á götunni,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar.

Hún segir að fjöldi fólks sem sé að missa leiguhúsnæði sitt og vilji búa áfram í Hveragerði verði að leita annað þar sem ógjörlegt hefur verið að fá nýtt leiguhúsnæði. Þrjár fjölskyldur í brýnum vanda leituðu til bæjarstýrunnar bara í gærmorgun, að hennar sögn.

Hún segir enn fremur að sér þyki það þyngra en tárum taki að á sama tíma séu tómar íbúðir í bænum sem ekki séu leigðar út. „Íbúðalánasjóður á um 40 íbúðir í Hveragerði en einhverjar af þeim eru í útleigu nú þegar. Það svíður aftur á móti að horfa á auðar íbúðir í eigu sjóðsins við aðalgötu bæjarins þar sem átta íbúða blokk í hans eigu er að mestu án íbúa,“ segir hún.

Hún segir enn fremur að kollegar hennar í öðrum nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur finni einnig fyrir því að ásóknin sé sífellt að aukast í húsnæði.

„Radíusinn er að færast út,“ segir hún enda húsnæðismarkaður með órólegra móti í höfuðborginni. Lóðirnar rokseljast í Hveragerði. Á fimmtudag verður úthlutað tveimur raðhúsalóðum og þá verða allar slíkar lóðir uppseldar hjá sveitarfélaginu en á þeim verða byggðar 26 íbúðir. Byggðaþróunin hefur verið Hvergerðingum í vil síðustu ár en þar búa rúmlega 2.300 íbúar eða um fjögur hundruð fleiri en fyrir áratug.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×