Innlent

Íbúðalánasjóður hefur leyst til sín 2.297 eignir einstaklinga á nauðungarsölum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Flestar eignirnar eru á Suðurnesjum en næst flestar á höfuðborgarsvæðinu.
Flestar eignirnar eru á Suðurnesjum en næst flestar á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm
Íbúðalánasjóður hefur leyst til sín 2.297 eignir einstaklinga á tímabilinu 1. janúar 2008 til 15. júní síðastliðinn. Til viðbótar leysti stjóðurinn til sín 1.261 eign í eigu lögaðila.

Þetta kemur fram í svari Eyglóar Harðardóttur húsnæðismálaráðherra í svari sínu til Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata, en svarið byggir á upplýsingum sem sjóðurinn tók saman.

Á fyrri hluta þessa árs hafði sjóðurinn leyst til sín 110 eignir einstaklinga en það er meira en allt árið 2008, þegar sjóðurinn hafði leyst til sín 88 eignir. Talsvert hefur dregið úr yfirtöku sjóðsins á fasteignum einstaklinga frá árinu 2013 þegar 590 eignir voru leystar til sjóðsins á nauðungarsölum hjá sýslumannsembættum landsins.

Flestar eignanna sem sjóðurinn hefur leyst til sín eru á Suðurnesjum og voru boðnar á nauðungarsölu af sýslumanninum þar. Næst flestar eignirnar eru á höfuðborgarsvæðinu, sem þó er talsvert stærra og fjölmennarra en Suðurnesin.

Sjóðurinn hefur þá leyst til sín 40 íbúðir á tímabilinu með samningum við skiptastjóra þrotabúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×