Innlent

Íbúar vilja að bærinn hindri flóð

Gaðar Örn Úlfarsson skrifar
Mikið vatnsveður varð á höfuðborgarsvæðinu um miðjan mars á þessu ári.
Mikið vatnsveður varð á höfuðborgarsvæðinu um miðjan mars á þessu ári. Fréttablaðið/Stefán

Bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ hafa borist erindi frá íbúum á tveimur stöðum sem óska eftir því að bærinn geri úrbætur til að hindra vatnsflóð í húsum þeirra. Í báðum tilvikum er vitnað til flóða sem urðu í miklu vatnsveðri 14. mars á þessu ári.

Íbúar í Álafosskvos segjast hafa fundað með bæjarverkfræðingi um leiðir til að koma í veg fyrir að alvarlegt vatnstjón endurtaki sig. Meðal þess sem þurfi að gera sé að hækka varnargarð meðfram Varmá, hreinsa reglulega framburð jarðefna úr ánni og hækka göngubrú svo hún valdi ekki stíflu.

Mikið tjón mun einnig hafa orðið í fjölbýlishúsinu Klapparhlíð 1 þennan dag þegar flæddi inn í bílakjallara og geymslur í gegnum útblástursrör sem fór á kaf. „Það er krafa húsfélags Klapparhlíðar 1 að Mosfellsbær tryggi að frárennsli frá þessari lægð við húsið verði bætt verulega svo sambærileg vatnssöfnun verði ekki möguleg í framtíðinni,“ segir í bréfi húsfélagsins sem ella vill að bærinn borgi hækkun á áðurnefndu útblástursröri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×