Erlent

Íbúar þorps sem heitir Drepum gyðinga kjósa um nafnabreytingu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Íbúar hins litla þorps á Spáni, sem heitir Castrillo Matajudios munu kjósa í næsta mánuði um hvort breyta eigi nafni þorpsins, sem móðgar utanaðkomandi og hluta íbúa þykir skömmustulegt, samkvæmt bæjarstjóra þorpsins.

Seinni hluti nafnsins, Matajudios, þýðir á íslensku: Drepum gyðinga. Frá þessu segir AP fréttaveitan.

Þann 25. maí verða íbúarnir spurðir hvort þeir vilji breyta nafninu í upprunalegt nafn þorpsins, Castrillo Motajudios. Það þýðir: Gyðingahæð og á rætur að rekja til ársins 1035, þegar 66 gyðingar voru drepnir í nærliggjandi þorpi. Eftirlifendur fjöldamorðsins settust að á hæðinni þar sem þorpið er nú.

Þau gögn sem fyrst vísa til nafnsins Drepum gyðinga, eru frá árinu 1627, eða meira en öld eftir konunglega tilskipun um að gyðingar skyldu yfirgefa Spán, verða kaþólikkar eða vera brenndir á báli. Tilskipunin var gefin út árið 1492 en þá var Spænski rannsóknarrétturinn að störfum í landinu.

Lorenzo Rodriguez Perez, bæjarstjóri þorpsins, segir sagnfræðinga halda telja að nafninu hafi verið breytt af gyðingum sem þá bjuggu í þorpinu til að sannfæra Spánverja um að þeir væru orðnir kaþólikkar. Aðrir telja að nafnið hafi einfaldlega breyst með stafsetningarvillu.

Nafnbreytingin er til komin vegna skrásetningar sögu þorpsins og til að laða ferðamenn að þorpinu.

„Það eru til sögur um fólk sem ferðast héðan til Ísrael þar sem það þarf að sýna vegabréf sem merkt er Matajudios,“ sagði Rodriguez. „Margir íbúar segjast vera frá Castrillo, án þess að nefna seinna nafnið.“

Nú búa engir gyðingar í þorpinu, en bæjarstjórinn segir marga íbúa eiga rætur sínar að rekja til gyðinga. Davíðsstjarnan er í skjaldamerki þorpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×