Innlent

Íbúar stefna verktökum vegna tjóns af völdum sprenginga

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá framkvæmdum í ársbyrjun.
Frá framkvæmdum í ársbyrjun. Vísir/GVA
Íbúar við Grandaveg og Lágholtsveg í Vesturbæ Reykjavíkur hafa höfðað mál á hendur verktakafyrirtækjunum Hagtaki og Þingvangi og Vátryggingafélagi Íslands vegna tjóns sem íbúarnir telja að þeir hafi orðið fyrir vegna sprenginga á svonefndum Lýsisreit í ársbyrjun. Vilja þeir að viðurkennd verði skaðabótaskylda vegna tjónsins auk þess sem fyrirtækin greiði málskostnað. Þingvangur er eigandi umræddar lóðar en Hagtak var undirverktaki sem sá um sprengingarnar.

Kjarninn greindi fyrst frá málinu í morgun en Vísir hefur tvær stefnur undir höndum. Um er að ræða íbúa annars vegar í húsi við Grandaveg 38 og hins vegar við Lágholtsveg 15. Fasteignirnar liggja að Lýsisreitnum. Sprengingarnar stóðu yfir frá 6. janúar til 31. mars að en til stendur að reisa íbúðarhúsnæði á reitnum þar sem Lýsi var áður til húsa. Meðal annars þurfti að sprengja klöpp á reitnum fyrir bílakjallara en áætlað var að sprengingum lykil mánaðarmótin febrúar mars.

„Það gæti dregist vegna ákvörðunar um að draga úr krafti sprenginga. Magn sprengiefnis var minnkað um helming,“ sagði Brynjar Einarsson, talsmaður Þingvangs, í samtali við Fréttablaðið. Sú varð raunin.

Auður Sigríður Kristinsdóttir sýnir skemmdir í kjallara sínum í febrúar.Vísir/GVA
Heilbrigð skynsemi

Svanlaug Rós Ásgeirsdóttir er annar íbúanna á Lágholtsvegi, aðeins sex metrum frá klöppinni þar sem sprengt var.

„Hér hefur allt nötrað og skolfið fimm til sex sinnum á dag frá því byrjað var að sprengja. Það er sprunga í vegg innanhúss og klæðningin utan á húsinu er að losna. Það virðist vera sem reglugerðin um sprengingar sé ansi rúm og ekki eiga við í þéttbýli. Hins vegar hef ég heyrt að það sé yfirleitt venjan þegar sprengt er í þéttbýli eða nálægt húsum að minnka leyfilegan hámarkskraft í sprengingum um helming sem nú er loksins búið að gera hér. Þetta er orðið mun bærilegra en samt ansi mikið. Þeir eru svo svakalega nálægt,“ sagði Svanlaug í viðtali við Fréttablaðið í febrúar.

„Heilbrigð skynsemi segir manni að ef einhver skemmir fyrir manni eigi hann að bæta fyrir það,“ sagði Auður Sigríður Kristinsdóttir, annar íbúanna á Grandavegi 38, í samtali við fréttastofu í febrúar. Sýndi hún hvernig molnað hafði úr grjótveggjum í kjallara hennar í viðtali við Fréttablaðið.

Í stefnunum kemur fram að sprengingarnar hafi verið mjög öflugar og í andstöðu við ákvæði reglugerða um sprengiefni. Þá er vísað í bylgjuhraða einstakra sprenginga sem allt að 66 mm/s. Í reglugerð um sprengiefni komi fram að hámarksbylgjuhraði þegar sprengt sé nálægt „vanalegum“ byggingum á meðalhörðu bergi skuli vera undir 50 mm/s.

Svanlaug Rós Ásgeirsdóttir bendir blaðamanni Fréttablaðsins á sprungu í vegg í húsi sínu.Vísir/GVA
131 árs gamalt hús

Báðar fasteignir eru innan við 50 metra frá sprengisvæðinu. Fasteignin við Grandaveg er auk þess frá 1883, einlyft timburhús með hlöðnum kjallara, og er elsta húsið sem enn standi á svokölluðu Bráðræðisholti. Því geti fasteignin ekki talist vanaleg eins og segir í stefnunni.

Báðir stefnendur fengu byggingatæknifræðing eða byggingarfræðing til að leggja mat á tjón sitt. Tjón var á steinhleðslu í kjallara og burðarsúlu á efri hæð í húsinu við Grandaveg að mati byggingatæknifræðings. Var það einnig álit byggingarfræðings að húsið við Lágholtsveg hefði orðið fyrir tjóni.

Krafa stefnenda byggir á því að stefndu beri ábyrgð á tjóni stefnenda. Tjónið er sennileg afleiðing af háttsemi stefndu og í beinum orsakatengslum við sprengingar stefndu. Tjón stefnenda hefði ekki orðið nema vegna sprenginga sem stefndu bera ábyrgð á að því er segir í stefnunum tveimur.

Stefnurnar voru lagðar fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.


Tengdar fréttir

Íbúar við Lýsisreitinn ekki tryggðir fyrir skemmdum

"Verktakinn skrifaði undir yfirlýsingu á fundinum þar sem lofað var að lækka sprengikraftinn um helming til að koma til móts við íbúa á svæðinu,“ segir Birgir Þröstur Jóhannsson, arkitekt og formaður íbúasamtaka Vesturbæinga, í samtali við Vísi.

Þurfum að læra að byggja í þéttri byggð

Þörf er á skýrari verklagsreglum við framkvæmdir í þéttri byggð, segir Páll Hjaltason, formaður umhverfis- og skipulagsráðs. Tryggja verði að ekki verði aftur röskun eins og á Lýsisreitnum. Undrandi á afstöðu tryggingafélaga.

Kvartað vegna titrings í húsum

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fóru í gær fyrir umræðu um uppbyggingu á þéttingarreitum með tilliti til reynslu af Lýsisreitnum svokallaða í Vesturbænum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×