Innlent

Íbúar safna rusli úti á svölum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Ruslatunnur eru víða yfirfullar í Breiðholtinu þar sem ekki tókst að tæma þær fyrir jól. Íbúar eru ósáttir þar sem ruslalykt fyllir ganga og ruslapokar eru farnir að safnast upp úti á svölum hjá þeim.

Starfsmenn borgarinnar stóðu í ströngu allt fram á aðfangadag við að reyna að tæma ruslatunnur borgarbúa fyrir jólin. Það tókst hins vegar ekki en veður og slæm færð settu strik í reikninginn.

Þegar starfsmennirnir fóru heim í jólafrí fyrir hádegi á aðfangadag voru þeir að minnsta kosti einum og hálfum degi á eftir áætlun. Þeir náðu því ekki að tæma ruslatunnur í Breiðholti líkt og til stóð. Ruslatunnur þar eru því víða yfirfullar og íbúar ósáttir.

„Gangurinn angar og þetta er bara ógeðslegt,“ segir Berglind Lovísa Sveinsdóttir íbúi í Írabakka. Hún segir íbúa nú safna ruslinu saman úti á svölum hjá sér. Hún telur að það þurfi að fjölga þeim dögum sem borgin sækir rusl en í dag er það á tíu daga fresti ef allt gengur upp.

Berglind er ósátt við borgaryfirvöld og segir leiðinlegt að ástandið sé svona yfir jólin. „ Maður er að fá gesti og annað eins á aðfangadag og þú veist yfir jólin og að þetta taki á móti manni þetta er bara hræðilegt. Engum bjóðandi,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×