Erlent

Íbúar Mosul óttast ofbeldi

Samúel Karl Ólason skrifar
Um 30 þúsund hermenn, Peshmerga og fleiri koma að aðgerðunum.
Um 30 þúsund hermenn, Peshmerga og fleiri koma að aðgerðunum. Vísir/AFP
Fyrsti dagur orrustunnar um Mosul gekk betur en áætlað var upprunalega. Minnst 20 þorp umhverfis borgina hafa verið frelsuð úr haldi ISIS. Hins vegar vara Bandaríkjamenn við því að orrustan muni vera löng og erfið.

Um 30 þúsund hermenn, Peshmerga og fleiri koma að aðgerðunum og þar að auki eru um fimm þúsund hermenn frá Bandaríkjunum auk hermanna frá Frakklandi, Bretland og Kanada sveitum Íraks til stuðnings.

Hernaðaryfirvöld Bandaríkjanna áætla að um þrjú til fimm þúsund vígamenn ISIS haldi borginni. Þeir hafa kveikt elda í olíulindum umhverfis borgina til að draga úr nákvæmni og tíðni loftárása.

Herinn og bandamenn þeirra sækja að Mosul úr suðri, en Kúrdar sækja að borginni úr norðri. Peshmerga sveitir þeirra hafa náð umtalsverðum hluta þjóðvegarins á milli Mosul og Erbil, höfuðborgar sjálfstjórnarsvæðis Kúrda í Írak.

Orrustan um Mosul.Vísir/GraphicNews
Íbúar óttaslegnir

Búið er að opna símakerfi borgarinnar aftur og geta íbúar Mosul nú verið í sambandi við umheiminn. Írakski herinn hefur sagt að íbúar hafi veitt þeim upplýsingar um staðsetningu vígamanna og fleira.

Íbúar eru þó óttaslegnir vegna orrustunnar. Þeir óttast hvernig vígamennirnir munu koma fram við þau og að verða fyrir loftárás. Þá óttast þau hvernig komið verði fram við þau þegar herinn og bandamenn þeirra sækja inn í Mosul.

Íbúar Mosul eru að miklum meirihluta súnnítar og óttast þeir að sjítar í hernum og vopnuðum sveitum sem aðstoða herinn muni beita þau ofbeldi, pynta eða myrða þau.

Amnesty International hefur skorað á yfirvöld í Bagdad að halda vopnuðum sveitum sjíta fyrir utan borgina. Umræddar sveitir nefnast Popular Mobilization Forces eða PMF og segja mannréttindasamtökin að ríkisstjórn Írak, sem er leidd af sjítum, beri ábyrgð á framferði sveitanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×