Innlent

Íbúar á Hvolsvelli óánægðir með skerta heilsugæsluþjónustu

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Halda á íbúafund á Hvolsvelli á mánudag vegna óánægju með skertan opnunartíma heilsugæslunnar í bænum.

„Um langt skeið hefur sveitarstjórn reynt að fá fund með forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands til þess að fá útskýringar á því hvers vegna Heilsugæslustöðin á Hvolsvelli var ekki opnuð eins og gert var ráð fyrir 1. september síðastliðinn," segir Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra. "Það var ekki fyrr en við vorum búin að fara tvisvar sinnum á fund forstjóra sem stöðin var opnuð – en það var 16. nóvember og þá með skertum opnunartíma."

Ísólfur Gylfi segir að í stað þess að vera opin alla virka daga á veturna eins og áður tíðkaðist sé heilsugæslan á Hvolsvelli nú aðeins opin þrjá daga í viku. Hann bendir á að fyrir nokkrum árum hafi sveitarfélagið gert heilsufarssamninga við HSU sem feli í sér að starfsmenn sveitarfélagsins fá þjónustu alla virka daga milli klukkan átta og níu í Heilsugæslustöðinni á Hvolsvelli.

"Það gefur auga leið að með takmarkaðri opnun er ekki staðið við samninginn af hálfu HSU," segir Ísólfur Gylfi sem kveður forstjóra HSU munu mæta á íbúafundinn til að skýra afstöðu stofnunarinnar.

Búast má við talsverðum fjölda á íbúafundinum miðað við að síðdegis í gær höfðu 186 manns þegar skrifað undir skjal á heimasíðu sveitarfélagsins þar sem þess er krafist að skerðingin á opnunartímanum verði dregin til baka. "Öll óvissa í þessum málaflokki reynir mjög á íbúa," segir í bréfi þar sem sveitarstjórnin býður fulltrúum HSU á íbúafundinn á mánudag. Í bréfinu kemur fram að forstjóri HSU telji þjónustuna á Hvolselli hafa verið bætta en að því sé sveitarstjórnin ósammála. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×