Innlent

Íbúakosning vegna Helguvíkur fer fram í nóvember

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Íbúakosningin verður rafræn og mun fara fram í seinni hluta nóvembermánaðar.
Íbúakosningin verður rafræn og mun fara fram í seinni hluta nóvembermánaðar. vísir/gva
Rafræn íbúakosning vegna breytinga á deiliskipulagi í Helguvík mun fara fram í síðari hluta nóvember. Þetta var ákveðið á fundi bæjarráðs í dag.

Eins og kunnugt er stendur til að reisa kísilverksmiðju í Helguvík en hópur íbúa sem berst gegn frekari stóriðju efndi til undirskriftasöfnunarinnar. Rúmlega 25% íbúa skrifuðu undir, eða alls 2697 einstaklingar. Þar með var 25% lágmarkinu náð sem Reykjanesbær gerir kröfu um vegna íbúakosninga.

„Bæjarráð Reykjanesbæjar tók formlega fyrir þessa niðurstöðu undirskriftasöfnunarinnar í morgun. Það var síðan staðfest að það mun fara fram íbúakosning í síðari hluta nóvember,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjnesbæjar, í samtali við fréttastofu.

Hann segir að kosningin verði rafræn en það hafi ýmsa kosti, meðal annars þann að kosningin getur farið fram fljótlega.

„Það er stefnt að því að klára þetta fyrir jól þannig að íbúakosningin fari fram í síðari hluta nóvember, hún mun standa í 10 daga þannig að við ættum að hafa niðurstöður úr henni bara fljótlega eftir það.“

Samkvæmt samþykkt bæjarráðs vegna undirskriftasöfnunarinnar í maí síðastliðnum verður íbúakosningin þó ekki bindandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×