Lífið

Í sparifötin á afmælistónleikum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Þessi mynd er tekin á jólatónleikum og hér eru kórkonur ekki komnar í nýju kjólana.
Þessi mynd er tekin á jólatónleikum og hér eru kórkonur ekki komnar í nýju kjólana.
„Á svona hátíðartónleikum finnst okkur við hæfi að fara í sparifötin og við ætlum að klæðast glæsilegum, nýjum kórkjólum sem hannaðir voru af Snædísi Guðmundsdóttur hjá Dís,“ segir Sigríður Þyrí Skúladóttir, formaður Kvennakórs Hafnarfjarðar. Kórinn heldur tvenna tónleika nú á vordögum og fagnar um leið tuttugu ára starfsafmæli á þessu ári.

Fyrri tónleikarnir verða í Hamarssal Flensborgarskólans í Hafnarfirði á morgun, 26. apríl, og hefjast klukkan 16 en þeir síðari verða í Fella- og Hólakirkju laugardaginn 2. maí og hefjast klukkan 15.

„Við ætlum að líta yfir farinn veg og rifja upp fjölmörg falleg lög frá liðnum árum, lög sem hafa öðlast sérstakan sess í hjörtum okkur kórkvenna á tuttugu ára starfsævi kórsins. Einnig ætlum við að frumflytja lag Þóru Marteinsdóttur við ljóð eftir Örn Árnason, það var samið sérstaklega fyrir kórinn í tilefni afmælisins,“ upplýsir Sigríður Þyrí.

Tveir hafnfirskir listamenn, þau Margrét Eir og Páll Rósinkrans, syngja með kórnum á tónleikunum en hljóðfæraleikarar verða Antonía Hevesi á píanó, Jón Rafnsson á kontrabassa og Kristrún Helga Björnsdóttir á flautu. Stjórnandi kórsins er Erna Guðmundsdóttir.

Sigríður Þyrí tekur fram að tónleikagestum verði boðið að þiggja afmæliskaffi og konfekt í hléinu.

Miðar eru seldir í forsölu á 2.500 krónur hjá kórkonum. Miðaverð við innganginn er 3.000 krónur en frítt er fyrir börn yngri en 12 ára. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×