Innlent

Í opnu fangelsi sökum aldurs

Snærós Sindradóttir skrifar
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að reynt sé að gera fangelsisvistina sem bærilegasta.
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að reynt sé að gera fangelsisvistina sem bærilegasta. vísir/andri marinó
Fanginn sem strauk af Sogni aðfaranótt mánudags var í opnu fangelsi sökum aldurs, þrátt fyrir að hafa strokið af Kvíabryggju á síðasta ári. Hann strauk ásamt öðrum manni en þeir eru báðir í kringum tvítugt. Annar þeirra fannst á sjötta tímanum í gær.

 „Viðkomandi er ungur einstaklingur sem við reynum að aðstoða í gegnum kerfið. Sé það mat okkar sérfræðinga hér, þegar um er að ræða svona unga dómþola, að þeir teljist ekki hættulegir þá gerum við það sem við getum til að vista þá við eins litla frelsisskerðingu og hægt er,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri. Þá skipti máli að halda ungum óhörðnuðum mönnum frá þeim sem gætu leitt þá frekar út á glæpabrautina.

Þegar maðurinn strauk af Kvía­bryggju fjallaði Fréttablaðið um að vegna þess að hann væri í stroki með öðrum fanga ætti sérstakt refsiákvæði við um athæfið. Að sögn Páls var málið látið niður falla. Mennirnir tveir mega eiga von á einangrunarvist á Litla-Hrauni í kjölfar stroksins nú og munu jafnvel klára afplánun í lokuðu fangelsi.

„Við beitum ekki einangrunarvist nema þegar öll önnur úrræði eru nýtt og bara við þessi grófustu brot. Strok úr afplánun og ofbeldi gagnvart samföngum er það grófasta,“ segir Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×