Innlent

Í mótmælasvelti vegna synjunar á dvalarleyfi

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Stephen Oyewole Ajemiare með þriggja ára son sinn.
Stephen Oyewole Ajemiare með þriggja ára son sinn. Fréttablaðið/Stefán
„Ég er algjörlega ráðalaus,“ segir Stephen Oyewole Ajemiare sem er kominn í hungurverkfall eftir að kærunefnd útlendingamála staðfesti synjun Útlendingastofnunar um dvalarleyfi hér á landi fyrir hann og fjölskyldu hans.

Stephen og eiginkona hans, Salome Esteves Garcia Buabonah, eiga þriggja ára son og eins og hálfs árs dóttur sem eru í leikskóla í Reykjanesbæ. Þau komu til Íslands 2014 og eignuðust dóttur sína hér í desem­ber það ár.

Stephen er frá Nígeríu og Salome er frá Miðbaugs-Gíneu. Stephen er kristinn og Salome er múslimi. Mismunandi trú og uppruni eru meðal ástæðna þess að þau leita skjóls í Evrópu.

„Framtíð barnanna minna og eiginkonu er í húfi. Það er vont að upplifa sig svo ráðþrota gagnvart því. Það stendur til að flytja okkur til Afríku, við vitum ekki til hvors landsins en það skiptir ekki máli. Börn okkar eiga enga framtíð í Afríku, þau eru fædd í Evrópu og dóttir okkar hér á Íslandi,“ segir Stephen á öðrum degi hungurverkfallsins.

Salome er með sykursýki og þarf að sprauta sig fjórum sinnum á dag.

„Verðum við send til Miðbaugs-Gíneu eða Nígeríu mun hún líklega ekki hafa ráð á meðferðinni,“ segir Stephen.

Salome segir líf þeirra hér á landi hafa gengið vel.

„Sonur minn hefur aðlagast vel í leikskólanum og þetta er gott samfélag. Ég skil ekki af hverju yfirvöld hér átta sig ekki á stöðu okkar, við höfum þó reynt að útskýra hana vel en hver sem er getur áttað sig á því hversu erfitt að það er fara allslaus til annars lands með lítil börn,“ segir Salome.

Fréttin birtist í Fréttablaðinu 19. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×