Skoðun

Í minningu um Sigga Hallvarðs

Sigurlaugur Ingólfsson skrifar
Þegar ég var polli þá hafði ég tvö áhugamál: Bækur og fótbolta. Þetta áhugamál sameinaðist oft í ritröðinni Íslensk knattspyrna. Jafnan staldraði ég við eitt nafn sem vakti áhuga minn: Sigurður H. Hallvarðsson. Þvílík markamaskína!

Þegar ég fór að fylgjast fyrst með Þrótti, sumarið 1994, þá hafði Siggi hengt upp skóna sína. Allt leit út fyrir að ég myndi aldrei sjá þessa goðsögn á knattspyrnuvellinum. En það átti eftir að breytast. Þegar ég var 14 ára, sumarið 1996, var ég í unglingavinnuhóp sem starfaði í Sæviðasundinu. Þar leit ég goðsögnina fyrst augum og það sem meira var Siggi tilkynnti nærstöddum að hann nennti ekki lengur að hanga í Old boys, hann var búinn að taka fram skóna aftur og það sem meira var fyrsti leikurinn var í kvöld.

Ég náð því í skottið á ferli þessa einstaka markaskorara, sem olli ekki vonbrigðum og setti nokkur mörk, oft eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Einn leikur stendur upp úr í minningunni, fremur öllum öðrum. Í lok sumars 1999 stóð Þróttur höllum fæti og var kominn með annan fótinn í 2. deild (C-deild). Willum þjálfari sendi út neyðarkall á Sigga, sem var staddur í fríi á Spáni og Siggi svaraði kallinu, flaug heim og tók sæti á bekknum.

Andstæðingar okkar voru spútnik lið Dalvíkur og staðan í hálfleik var ekki vænleg: 0-1 Dalvík í vil. Um miðjan seinni hálfleik kom skiptingin sem allir voru að bíða eftir og ég man hvað ég hafði sterka tilfinningu fyrir því að Siggi myndi skora. Það var eins og það væri skrifað í skýin. Þetta var eins og söguþráður í Tár, bros og takkaskór eftir Þorgrím Þráinsson. Siggi kom inn á, og stuttu seinna var hann kominn með boltann í fæturnar, einn og óvaldaður og sendi bogabolta yfir markvörð Dalvíkur, jafnaði, hljóp út af vellinum, velti sér í kollhnís í brekkunni, kom aftur til baka, fékk gult spjald hjá dómaranum og bjargaði Þróttti frá falli.

Þvílík goðsögn og þvílík forréttindi að fá að vera bera goðsögnina augum. Á síðustu árum náði ég að kynnast goðsögninni betur og ekki úr fjarlægð og það voru líka forréttindi. Ég votta vinum og fjölskyldu Sigga samúðarkveðjur mínar.

Útför Sigurðar fer fram í Hallgrímskirkju í dag, 18. júlí 2014, og hefst athöfnin kl. 13.15.


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×